Listasafnreykjavíkur

Sýningaropnun: D40 Una Björg Magnúsdóttir, fimmtudag 16. janúar í Hafnarhúsi

Sýningaropnun í Hafnarhúsi, fimmtudag 16.01. kl. 20.00
D40 Una Björg Magnúsdóttir:
Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund

Fertugasta sýningin í D-salarröð Listasafns Reykjavíkur verður opnuð fimmtudaginn 16. janúar kl. 20.00 í Hafnarhúsi. Þar sýnir Una Björg Magnúsdóttir innsetningu sína Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund

Heiti sýningarinnar er dregið af einu þekktasta töfrabragði stjörnutöframannsins David Copperfield. Þar lætur hann hóp áhorfenda hverfa fyrir augum annarra áhorfenda og birtast á ný á öðrum stað.

Þó Una Björg geri ekki tilraun til að láta áhorfendur hverfa í innsetningu sinni varpar hún fram hugmyndum um skynvillu og blekkingar. Verkið er aðlaðandi en fráhrindandi á sama tíma. Listamaðurinn líkir eftir raunveruleikanum með augljósu gervi og leitast við að rjúfa samfellda upplifun sýningargesta með því að setja fram kunnuglega hluti, hljóð og ilm sem passa þó ekki við reynsluheim okkar.

Með því að virkja nokkur skynfæri á sama tíma kannar Una Björg möguleikann á að kalla fram óvæntar tilfinningar og viðbrögð hjá áhorfendum sínum.

Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990) útskrifaðist með BFA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2014 og lauk meistaranámi í sama fagi árið 2018 frá ÉCAL, École Cantonale D’Art de Lausanne í Sviss. Una Björg hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér á landi og erlendis.

Sýningarstjóri er Aldís Snorradóttir, verkefnastjóri miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur.

Sýningaröðin í D-sal hóf göngu sína árið 2007. Hér er listamönnum sem hafa mótandi áhrif á íslenska myndlistarsenu boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni.

Við sama tækifæri verður opnuð sýningin Röð og regla: Skissa að íslenskri samtímalistasögu [IV] í A-sal Hafnarhússins. Sýningin er fjórða skissan sem byggist á verkum úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Valin eru saman verk og sett í þematískt samhengi í tilraun til að endurspegla listasöguna jafnóðum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com