Image006

Sýningaropnun – Birgir Snæbjörn Birgisson í Hafnarborg

Laugardaginn 8. október kl. 15 verður sýningin Von opnuð í Sverrissal Hafnarborgar með nýjum verkum Birgis Snæbjörns Birgissonar myndlistarmanns.

Birgir Snæbjörn Birgisson hefur málað portrett af þingmönnunum 63 sem settust á þing eftir kosningarnar 2013 og einum að auki. Þarna birtast myndir af kjörnum fulltrúum sem sýna þá alla í sama ljósi, sem eina heild. Myndirnar benda á það sem þeir eiga sameiginlegt og það sem skilur þá að. Þessi heild, er táknmynd fyrir von okkar og þrár, óskir en líka ótta okkar. Þetta eru fulltrúar fólksins, samnefnari þjóðarinnar sem samfélagið treystir fyrir mikilvægum ákvörðunum og framkvæmdum.
Í verkum Birgis er að finna samfélagslega og pólitíska skírskotun. Þau krefjast að áhorfandinn staldri við og rýni í verkin, bæði að leit að myndefninu sjálfu sem og inntakinu.

Listamannsspjall fer fram sunnudaginn 9. október kl. 14.
Samtal um sýninguna verður haldið fimmtudagskvöldið 20. október kl. 20.

Birgir Snæbjörn Birgisson, fæddur 1966, stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands á árunum 1986-89 og við fjöltæknideild École des Arts Décoratifs í Strassborg í Frakklandi frá 1991 – 93. Hann var búsettur um tíma í London þar sem hann starfaði að myndlist en býr og starfar nú í Reykjavík. Birgir hefur haldið meira en tuttugu einkasýningar og átt verk á ótal samsýningum bæði á Íslandi og erlendis. Birgir hefur lengi unnið með staðalímyndir um norrænt útlit. Dæmi um slík verk eru myndraðirnar Ljóshærðir hjúkrunarfræðingar, Ljóshærðar starfsstéttir, Ljóshærð ungfrú heimur 1951-, Auðmýkt, Ljóshærðir listamenn og Ljóshærðir tónlistarmenn.

Sýningarstjóri sýningarinnar er Mika Hannula en hann og Birgir Snæbjörn hafa unnið saman að ýmsum verkefnum síðan 2002.

Nánari upplýsingar veita: Áslaug Friðjónsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar, s. 585 5790
og Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, s. 585 5790.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com