Kaktus

Sýningaropnun „alltaf aldrei“ í Kaktus á Akureyri

Föstudagskvöldið 21. júní kl. 20 opnar Heiðdís Hólm sýninguna „alltaf aldrei“ í Kaktus. Einnig er opið laugardag og sunnudag frá kl. 15 – 18. Léttar veitingar í boði.

Til sýnis verða nýjar teikningar og eitthvað. Kannski. Að tengjast og rakna upp. Góð að rekja upp. Bláminn er eiginlega rauður. Meyjarblámi. Hún fagnar og saknar, hvernig sem viðrar. Svo fer hún með hafinu. Eða eitthvað svoleiðis.

Vönkuð og snúin. Og lúin. Hún fletti ofan af einu lagi, þannig að núna sést í hold í gegnum himnu og hún er mjúk og smá slímug og eitthvað frekar viðkvæm bara. Hægt að pota og fara alveg djúpt. Kona. Þarna er fagurfræðin og bræðin. Eða eitthvað.

Heiðdís Hólm er fædd 1991 og uppalin á Egilsstöðum og lauk námi úr Myndlistarskólanum á Akureyri vorið 2016. Hún býr og starfar í Glasgow í Skotlandi. Heiðdís notar blandaða listmiðla og leggur áherslu á breytileika efniviðarins. Verkin eru gjarnan sjálfsævisöguleg og femínísk, um lífið, listina og letina.
www.heiddisholm.com

Sýningin er hluti af þemamánuðnum Fljóðamóður sem er tileinkaður íslenskum myndlistarkonum og listsköpun kvenna. Kaktus er styrktur af Akureyrarstofu, Myndlistarsjóði og Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Kaktus er til húsa við Strandgötu 11b, Akureyri. www.kaktusdidsomeart.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com