Listasafn Reykjavíkur

Sýningaropnun − D37 Gunnar Jónsson: Gröf Fimmtudag 16. maí kl. 20.00 í Hafnarhúsi

Sýning á verkum Gunnars Jónssonar, Gröf, verður opnuð í D-sal Hafnarhússins, fimmtudag 16. maí kl. 20.00. Gunnar er 37. listamaðurinn sem sýnir í sýningaröðinni í D-sal, þar sem listamönnum er boðið að halda sína fyrstu einkasýningu í opinberu safni. 

Gunnar Jónsson beinir í verkum sínum sjónum að eigin uppruna, sjálfsmynd og umhverfi. Gunnar er fæddur í Reykjavík en uppalinn á Ísafirði þar sem hann býr nú og starfar. Tengsl hans við höfuðstaðinn annars vegar og landsbyggðina hins vegar eru honum sérstaklega hugleikin. Í verkinu Gröf er áhorfandinn tekinn með í ferð um Reykjavík þar sem Gunnar rekur sögu sína og forfeðra sinna um borgina. Titill verksins vísar til bæjarins Grafar í Grafarholti, þangað sem Gunnar á ættir að rekja, og hefst ferðalagið þar. Gunnar skoðar þær breytingar sem hafa átt sér stað á borginni á undanförnum árum á myndrænan og hljóðrænan hátt. Verkið er nokkurs konar sjálfsæviágrip með undirleik. Tónlistin sem leikin er á kontrabassa og píanó er spunnin út frá myndbandinu og tekin upp í stofunni hjá foreldrum listamannsins á Ísafirði. 

Gunnar, sem er fæddur árið 1988, lauk BA-prófi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2012 og hefur sýnt talsvert á Íslandi og erlendis síðan hann útskrifaðist. Hann er virkur í ýmsu félagsstarfi og er m.a. varamaður í stjórn Reykvíkingafélagsins á Ísafirði og í stjórn sýningarsalarins Úthverfu.

Sýningarstjóri er Edda Halldórsdóttir, verkefnastjóri skráningar hjá Listasafni Reykjavíkur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com