Johanna Skulptur

Sýningaropnanir í Hafnarborg Laugardag 24. mars kl. 15

Laugardaginn 24. mars kl. 15 verða opnaðar tvær sýningar í Hafnarborg. Í aðalsal safnsins er það sýningin Margoft við sjáum og margoft við sjáum aftur, með verkum Jóhönnu Kristbjargar Sigurðardóttur. Í Sverrissal verður opnuð sýningin Afstæði þar sem sýnd verða ný málverk eftir Jón Axel Björnsson.

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir fæst við margþætta innsetningar þar sem hún notast við ólíka miðla. Mikil leikgleði ríkir í verkum hennar sem einkennast af flæði óhlutbundinna forma og lita sem hún vinnur með á ljóðrænan hátt líkt og um sjálfstætt tungumál sé að ræða. Á sýningunni í Hafnarborg eru innsetningar sem samanstanda af málverkum, skúlptúrum og myndböndum en flestar hafa ekki verið áður sýndar hérlendis.

Sunnudaginn 25. mars kl. 14 mun Jóhanna vera með listamannsspjall.

Málverk og vatnslitamyndir Jóns Axels Björnssonar dansa á litríkum mörkum hins sýnilega og ósýnilega, á milli forma sem birta okkur hluti og fanga huglægt ástand. Verkin einkennast af stórum einlita flötum sem skipta upp myndfletinum og fljóta á yfirborði hans, mannsmyndir skjóta upp kollinum á leið út eða inn við jaðar myndrammans. Myndheimurinn er samhæfður; litafletir, fígúrur og hlutir skapa spennu innan rammans og gefa til kynna að í verkunum búi saga.

Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir f. 1982. Starfar bæði í Reykjavík og Antwerpen í Belgíu, þaðan sem hún lauk M.A. gráðu frá málaradeild KASK (2013), Gent og tveggja ára postgratuate námi frá HISK, Higher Institute for Fine Arts (2014 – 2015), Gent. Áður lauk hún B.A frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið (2008). Jóhanna er ein listamanna hjá Trampoline Gallery í Antwerpen og ein af stofnendum ABC Klubhuis sem er nýtt listamannarekið sýningarrými staðsett í Antwerpen. Jóhanna hefur sýnt verk sín víða meðal annars í listasafninu S.M.A.K í Gent, Moscow Biennale 2015, Andersen’s Contemporary í Kaupmannahöfn, Ornis A. Gallery í Amsterdam og KUNSHALLE São Paulo í Brazilíu.

Jón Axel Björnsson er fæddur 1956 í Reykjavík. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1975 – 1979. Jón er starfandi myndlistarmaður og hefur haldið fjölda sýninga á Íslandi og erlendis. Auk myndlistarinnar hefur Jón Axel unnið við kennslu í MHÍ og LHÍ 1985-1999 og Myndlistaskólanum í Reykjavík 1995-2000. Þá vann Jón Axel við leikmyndahönnun 2002-2006 í Borgarleikhúsinu, Þjóðleikhúsinu og LA. Akureyri. Jón Axel hefur einnig starfað með arkitektum að ýmsum verkefnum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com