Listasafnreykjavíkur

Sýningarlok og leiklestur – EITTHVAÐ úr ENGU: Myndheimur Magnúsar Pálssonar

Síðasti dagur sýningarinnar EITTHVAÐ úr ENGU: Myndheimur Magnúsar Pálssonar er sunnudagurinn 5. janúar.

Ferill Magnúsar Pálssonar einkennist af því hversu víða listamaðurinn hefur komið við og markað spor. Sem kennari hefur hann haft mikil áhrif á kynslóðir listamanna. Í leikhúsi hefur hann skapað nýstárlegar sviðsmyndir og tilraunakennd leikverk. Sem gjörningalistamaður er Magnús ótvíræður frumkvöðull. Í myndlist er hann lykilmaður í hinum miklu breytingum sem urðu á þeim vettvangi á sjöunda og áttunda áratugnum. Við endurskoðun á eðli listsköpunar varð til nýtt myndmál sem byggðist á gagnrýnni afstöðu til listasögunnar fram að því en opnaði um leið nýjar leiðir til framtíðar. Magnús prófaði sig áfram með verk sem að sumu leyti voru í anda flúxus, pop og konseptlistar en eru að sama skapi algjörlega einstök.

Á síðasta degi sýningarinnar lesa Félagar í Nýlókórnum úr bókverkinu The Offs eftir Magnús Pálsson. Verkið er jafnframt leikrit í tveimur hlutum. Það er byggt á klippitækni sem Magnús notar svo oft í sínum verkum. Verkið er í eigu Listasafns Reykjavíkur og er til sýnis ásamt öðrum bókverkum á sýningunni.

Upplesturinn fer fram í C-sal.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com