Chandra Harbinger

Sýningarlok Chöndru Sen í Harbinger

Sýningu Chöndru Sen, ‘Find home’ lýkur um helgina. Opið verður  á föstudaginn frá 14-17 og á sama tíma á laugardaginn.

Við hvetjum ykkur eindregið til að missa ekki af þessari fallegu sýningu.

Og þá gerist það
dramatískasta stund stunda
rólega í átt að himnum einn af einum stekkur út
Þyngdarlögmálið sleppir takinu af hófunum algjörlega væmnislaust
faxið sveiflast á íburðarmikinn hátt
á meðan lífið líður smátt og smátt úr löppunum

Hlustið

Það rignir hestum í veröld stórkostlegheitanna
Þeir munu skilja okkur eftir
Þið haldið áfram að lifa, elska og borða smá mat
til þess að gleyma að eitt sinn voru þeir á lífi
að þeir voru til
að þeir, rétt eins og þú, báru með sér þrá og skinn
sem eitt sinn var snert
og hugsanlega kitlað

ljóð: Erika Cederqvist
þýðing: Kristinn Guðmundsson
___

Málverk Chöndru eru upprunnin á vissum stað, en hann er óljós.
Hugarrými sem byggir á tilfinningu, fleirum en einni og engri heilli. Þær umbreytast. Þær eiga sér ólíkan uppruna. Í persónulegri reynslu, sameiginlegri reynslu, eða í undirmeðvitundinni. Sumar eiga sér stað í tíma og rúmi, á ákveðnum áratugi eða ári. En aðrar eiga sér engan tíma, eða öllu heldur allan tímann. Þær tilheyra kringumstæðum, andvaranum, ljósinu, skýjamyndunum, sem endurtaka sig í sífellu en eru ávallt nýjar, og þó, kannski var einhver einhverntímann einhversstaðar sem horfði upp á einmitt sömu skýin í sömu birtunni og fann sömu lyktina.
Umgjörðin og inntakið er ekki bundið við nútímann. Er við skoðum verk Chöndru erum við bæði hér og nú og líka fyrir 1000 árum. En verkin hennar fást við nútímann, við nútíðina. Þá sem leið og þá sem er og þá sem kemur, og allar þær sem fylgja í hringrás á eftir þeim sem voru.
Verkin eru afurð nútímans, meðvituð um frumþörf sem er erfitt að uppfylla í þess háttar lífi sem við lifum. Meðvitund sem einungis verður til við skort.

texti: Steinunn Önnudóttir

Chandra Sen, f. 1986 í Svíþjóð, býr og starfar í Stokkhólmi.
Hún lauk BA námi í myndlist frá Gerrit Rietveld Academie árið 2012, og MA námi við Listaháskólann í Osló árið 2014.
Árið 2015 tók hún þátt í samsýningunni Menneskeberger á vinnustofur Edvards Munch í Osló, og gerði sviðsmyndina fyrir His own Room eftir Solberg/Cederqvist sem var sýnt í Black Box leikhúsinu í Osló og víða í Hollandi. Árið 2015 lauk Chandra árs residensíu í Kunstnernes Hus í Oslo, og hafði einnig listamannaaðsetur í húsi Edvards Munch í Warnemunde, Þýskalandi, sumarið 2015.
Fyrri einkasýningar eru hjá Podium í Osló og k.i.beyonce í Amsterdam. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum m.a. Grey Gorges Cast No Shadows hjá Kurant í Tromsø, Missing Small Wolf in Bronze, í Kunstenernes Hus í Oslo, og ABBA Art Books By Artists í Amsterdam. Næsta sýning hennar verður í haust hjá Diepte í Stokkhólmi.

Sýning er styrkt af Sænsk-íslenska Samstarfssjóðnum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com