DJK Expo Notext 3

Sýning – Svart á Svörtu (Blackened) Opnun fimmtudaginn 3 október klukkan 17:00 í SÍM salnum, Hafnarstræti

Diðrik Jón Kristófersson (Nekron) sýnir 21 fersk málverk í sýningarsal SÍM við Hafnarstræti 16 í Reykjavík.

Diðrik er menntaður á Kýpur og í Hollandi við Willem de Kooning Listaakademíuna í Rotterdam, en lauk nýverið Meistaragráðu í Kennslufræði Sjónlista við Listaháskóla Íslands. Hann hefur sýnt víða um Evrópu, þó helst í Hollandi og á Íslandi.

Sem still í smíðum þykir Sortnun einstakt fyrirbæri og er unnið út frá hugmyndum og aðferðafræði hugsmíðahyggjunar til samruna sýndarveruleikans, umhverfis og áhorfanda. Hvert verk er sjálfstætt sem mynd af sjálfu sér, en tilheyrir þó stærri heild seríu í samspili myndverka sín á milli.

Allir velkomnir!

Facebook viðburður

SORTNUN (Blackened) – Lýsing / hugleiðing

„Í upphafi var myrkrið…“

„Þangað liggur beinn og breiður vegur“ segir í kvæðinu, en það þætti viðeigandi stef sem fangar þá tilfinningu sem fylgir því að hafa náð að snúa upp á hjólið og beinlínis finna upp nýjan stíl í myndlist. Mikilvægi þess sannast hins vegar einungis með því að listin hljóti uppljómun og jafnvel verðskuldaða athygli á þeim vettvangi þar sem hún getur öðlast líf, tilveru og tilgang. Ef marka má upphafið; þá má segja að tími sé til þess kominn og nauðsynlegt að keyra form, miðlun og tækni gegnum þær hindranir sem hafa myndast samfleytt þeim markverða árangri sem hefur þegar náðst. Nýjar og stórtækar áskoranir eru nauðsynlegar til þess að listin vaxi og dafni.

Úr myrkrinu rís formið og sortinn magnast; sveigir sig og beygir og fangar ljósið, en myndefnið og flæðið fangar aftur á móti athygli og ímyndunarafl sjáandans. Hvert verk er sérstætt og segir vissulega sína sögu; en norrænt munstur, rúnir, tákn, þræðir og undraverur færa saman fortíð og framtíð í nútíðinni þar sem hugtakið „lifandi list“ fær vissulega aukið gildi í samsæri raunsæis og tilfinninga. Sortnun (Blackened) er beinlínis svart á svörtu; unnið frjálst og út frá fletinum til að mynda það sem hverjum sýnist innan um það sem listaverkið miðlar á eigin vísu. Skuggar vaxa og hörfa; litir festast í sortanum, týnast, hverfa jafnóðum og birtast að nýju. Myndverkið breytist stöðugt og áhorfandinn nýtur þess að eiga þátt í samspili síbreytilegrar myndlistar þar sem jafnvægið stendur stöðugt á barmi hins tví- og þrívíða í nær óendanlegu litrófi skuggans.

Fyrsta kafla er lokið og rúmir þrír tugir verka seldir þó ekki séu nema níu mánuðir síðan fyrsta verulega kynning átti sér stað og þætti það vegvísir á vissan hátt. Þá teygja angar listsköpunar sig upp úr myrku djúpinu og krefjast þess að haldið sé ótrautt áfram; að ferskar og framandi hugmyndir öðlist líf á striganum. Dulspekilegur stíll sortnunar verður að ná þeim hæðum, gæðum og víddum sem leynast við ystu sjónarrönd. Hvert verk, hver sýning og hver áskorun bjóða upp á fersk markmið og ófyrirsjáanleg tækifæri bærast vissulega handan rammans. Dimmar verur seilast í ljósið og stíga út úr myndforminu, styrkjast við hvert fótmál og kalla á eigin tilverurétt handan undirmeðvitundar listamannsins. Hér verður unnið hörðum höndum að uppfylla persónulega drauma og kröfur; að miðla sérstakri veruleikasýn þar sem andstæður hins sýnilega og hulda mætast; og listaverkið öðlast verulegt sjálfstæði sem mynd af sjálfri sér í þeim veruleika sem ríkir og skapast í kringum það (artefact). Meginstefnan fælist í táknrænu hlutverki mannslíkamans, hreyfingum, víddum og flæði þar sem minnistæðar uppsetningar mæta ljóðrænum þræðingum og táknrænum smáatriðum.

Diðrik Jón Kristófersson (Nekron) – Júní 2019

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com