KE022 YellowBedroom.Small

Sýning Katrínar Elvarsdóttur, Leitin að að sannleikanum í BERG Contemporary 11.05.

Sýning Katrínar Elvarsdóttur, Leitin að að sannleikanum, opnar í BERG Contemporary föstudaginn 11. maí kl. 17.


Katrín hefur á síðustu fimmtán árum unnið sér sess sem einn fremsti ljósmyndari landsins og átt ríkan þátt í að breyta viðhorfi til ljósmyndunar sem listmiðils hér á landi. Á sýningunni í BERG Contemporary fjallar Katrín bæði um óljós mörk ímyndunar og veruleika og um það hvernig minningar okkar eiga það til að fjarlægast raunveruleikann hægt og rólega þar til eitthvað í umhverfinu, óvænt snerting við efni, sjónhending eða hljóð, verður til þess að vekja hið liðna til lífsins.

Leitin að sannleikanum er fyrsta sýningin á verkum Katrínar Elvarsdóttur í BERG Contemporary.

Í sýningaskrá segir meðal annars:

Ljósmyndin er sá miðill sem Katrín Elvarsdóttir hefur valið til að fjalla um áleitnar spurningar um upplifun okkar í tíma og rými, minningar og óljós mörk hins ímyndaða og hins raunverulega. Katrín hefur á síðustu fimmtán árum unnið sér sess sem einn fremsti ljósmyndari landsins og átt ríkan þátt í að breyta viðhorfi til ljósmyndunar sem listmiðils hér á landi. Katrín hefur haldið einkasýningar víða, bæði hér á landi og erlendis, m.a. í Gerðarsafni í Kópavogi 2016 og á Listasafni Reykjavíkur árið 2010. Á síðustu árum hafa verk hennar líka verið sýnd á fjölda samsýninga, meðal annars í Martin Asbæk Gallery í Kaupmannahöfn 2017 og Hillyer Art Space í Washington D.C. 2014. Á þessu ári tekur Katrín meðal annars þátt í sýningum í Vínarborg, Seoul og Helsinki. Katrín hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín og var árið 2009 tilnefnd til Deutsche Börse Photographic Prize. Síðastliðið haust tók hún á móti hinum viðurkenndu EIKON-verðlaunum í Vínarborg.

Sýningin í BERG Contemporary nefnist Leitin að sannleikanum og í henni fjallar Katrín bæði um óljós mörk ímyndunar og veruleika og um það hvernig minningar okkar eiga það til að fjarlægast raunveruleikann hægt og rólega þar til eitthvað í umhverfinu – óvænt snerting við efni, sjónhending eða hljóð – verður til þess að vekja hið liðna til lífsins. Á þannig stundum yfirtekur hið liðna líkamann og allt verður ljóslifandi eitt augnablik áður það hverfur á ný og samlagast frásögninni um okkar eigið líf.

Sigrún Alba Sigurðardóttir skrifaði

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com