Download

Sýning Jóns Magnússonar Skyndimyndir í Íslensk Grafík salnum, Tryggvagötu 17

Sýning Jóns Magnússonar Skyndimyndir í Íslensk Grafík salnum, Tryggvagötu 17. (Sama hús og Listasafn Reykjavíkur, gengið inn bakdyramegin.)

Opnun: Skyndimyndir

Laugardaginn 14. júlí kl. 16-19 opnar sýning Jóns Magnússonar „Skyndimyndir“

Opið verður einnig frá 13-17, sunnudeginum 15. júlí  og opnað frá miðvikudeginum 18. júlí kl. 13-17 alla daga til sunnudags 22. júlí.

Á 19. öldinni, Þegar mannfræðingar vildu skrásetja hin ýmsu frumstæðu menningarsamfélög, kom það mörgum þeirra í opna skjöldu að innfæddir víða um heim óttuðust myndavélar. Fyrir hinn siðmenntaða mann var mynd af innfæddum einungis geymd sönnun um tilvist þeirra, en fyrir þeim innfæddu var myndin eins og önnur vídd þar sem andar og sálir þeirra væru festar í fangelsi.

Orðið „andlit“, í íslenskri tungu, merkir útlit andans. Í því tilliti getur maður vel skilið hinn frumstæða mann sem horfir á eftirmynd af eigin andliti, frosið og dautt á tvívíðri mynd, og áttar sig ekki á ljóstæknifræðinni sem myndavélin byggir á eða þeirri staðreynd að ljósmyndin sýnist einfaldlega vera sönn þótt hún sé það ekki. Hún skráir augnablikið sem fyrir henni er, en þetta sama augnablik verður samt aldrei geymt í mynd, ekki frekar en andinn.

Í málverki snýr dæmið þó aðeins öðruvísi. Það vefst ekki fyrir neinum að máluð mynd af augnabliki sé í eðli sínu blekking. Rithöfundurinn og listmálarinn Julian Bell tekur skemmtilegt dæmi um þetta í bókinni What is Painting, þar sem hann bendir á að ef einhver sýni lögreglu ljósmynd af glæp, sé ljósmyndin tekin sem sönnunargagn um að glæpurinn hafi verið framinn. Komi hins vegar einhver með málverk af samskonar glæp dugar það aldrei sem sönnun. Málverk er bara ekki trúverðug skrásetning á augnabliki. Til þess er það of bundið skáldskaparlistinn.

Í málaralistinni má samt finna þá einkennilegu mótsögn að þótt listmálarinn viti að hann sé að skálda myndir með litum, formum og efni er hann oftar en ekki að leitast eftir einhverju sönnu. Hollenski listmálarinn Vincent Van Gogh ritaði til að mynda í bréfi til bróður síns að í málverki þyrfti hann að styðjast við lygina til þess að ná fram sannleikanum. Fyrir Van Gogh snerist málaralistin ekki um skrásetningu í myndum heldur um að ná fram tilfinningalegum áhrifum. Þau eru vissulega sönn þótt myndin kunni að vera lygi.

Með þessum hætti horfi ég einnig á málverk Jóns Magnússonar. Hann tekur skyndimyndir á snjallsímanum sínum af augnablikum, einhverjum atburðum sem eiga sér stað í hans daglega lífi eða af andlitum manna og kvenna sem hann hittir á förnum vegi. Þessum myndum er þó ekki ætlað að sanna tilvist einhvers augnabliks. Þvert á móti er þeim ætlað hlutverk í skáldskap málaralistar. Jón notar þær sem fyrirmyndir í málverk. Hann málar hratt og örugglega eftir snjallsímamyndunum, eins og til að heimfæra skyndimenningu samtímans í málverkið, um leið og hann takmarkar raunsæi myndanna en ljáir þeim þess í stað þétta áferð og efniskennd.

Jón er ekki að fást við skrásetninguna sem slíka. Ef svo væri þyrfti hann ekki að mála eftir snjallsímamyndunum. Þær eru nægar skrásetningar, hver fyrir sig. Jón leitast eftir tilfinningalegum áhrifum í málverkinu og glímir þar við útlit andans. Ekki þannig að hann sé að fanga andann í mynd eins og hinn frumstæði maður áleit myndavélina gera, heldur er hann að kalla fram andann í efninu. Það, leyfi ég mér að segja, er lygilegur sannleikur málverksins.

–Jón B. K. Ransu

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com