MENGI POSTER72dpi

Sýning í Mengi – Sara Riel

Graphic Score // Sara Riel
Mengi – Creative and experimental Music & art
3.-13. 2015

Sýning á teikningum Söru Riel í Mengi og tónleikar/gjörningur ásamt Skúla Sverrissyni, Gyðu Valtýsdóttur, Eiríki Orra Ólafssyni og Ólafi Birni Ólafssyni, fimmtudagskvöldið 3. desember klukkan 21.

Ólíkar kveikjur liggja að baki sýningu Söru Riel sem verður opnuð í Mengi fimmtudaginn 3. desember. Rótin að einhverju leyti gjöfular samræður vinanna Söru og Skúla Sverrissonar þar sem uppsprettu sköpunar og listar bar á góma með viðkomu í hugmyndum Duchamp, Cage og fleiri og fleiri og í framhaldi af þeim samræðum, lestur Söru á bók Kay Larson um John Cage, zen-búddisma og innri hjartslátt lífsins.

Bók sem kom á háréttum tíma inn í líf mitt, segir Sara sem hefur lengi leitað í rætur austrænna trúarbragða og andlegrar iðkunar, líkt og John Cage. Þrá eftir að þreifa sig áfram með list sem sprytti fremur úr undirmeðvitund og tilfinningum leiddi að einhverju leyti til teikninganna sem hér má sjá. Teikningar skapaðar á meðan myndlistarkonan hlustar á tónlist sem valin hefur verið af handahófi úr plötusafninu hennar, þegar tónlistin tekur að óma lokar Sara augunum og leyfir pennanum að taka á rás. Undirmeðvitundin fær að ráða för, rökhugsun og ritskoðun víkja fyrir innsæi og tilfinningu, hlustunin mótar teikninguna.

Áhugi á grafískri nótnaskrift er önnur kveikja að sýningunni, aðferð sem tilraunaglöð tónskáld beggja vegna Atlandsála tóku að þróa þegar þau fundu fyrir takmörkunum hinnar hefðbundnu vestrænu nótnaskriftar. Tónskáld meginlandsins á borð við Kagel, Stockhausen og Ligeti tóku að leika sér með tákn og sjónræna framsetningu sem áður höfðu ekki þekkst innan tónlistarsögunnar, vestan hafs tónskáld á borð við Christian Wolff, Morton Feldman og téðan Cage. Tónlistarflytjendur túlka grafísku nótnaskriftina að sínum hætti, hún misopin fyrir alls kyns túlkunarleiðum. Hér verður grafísk nótnaskrift til út frá hlustun myndlistarkonu á tónlistina, ferlinu snúið við og velta má fyrir sér hvers konar tónlist teikningar Söru myndu kveikja ef tónlistarmenn tækju sig til og létu innblásast af þeim.

Teikningarnar á sýningunni mótaðar yfir nokkurt tímabil og um leið mun nýtt verk fæðast. Á tónleikum sem fram fara fimmtudagskvöldið 3. desember í Mengi munu tónlistarmennirnir Skúli Sverrisson, Eiríkur Orri Ólafsson, Ólafur Björn Ólafsson og Gyða Valtýsdóttir koma saman og spinna hljóðvef á meðan Sara leyfir tónlistinni að leiða sig áfram. Teikningunni varpað á tjald svo gestir geta fylgst með framvindunni. Gjörningurinn / spuninn tekur um það bil eina klukkustund, eftir hann mun myndin sem til verður á staðnum fara í ramma upp á vegg og verða hluti af heildinni.

Sýningin verður opnuð fimmtudagskvöldið 3. desember í Mengi. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00. Miðaverð 2000 kr.  Sýningin stendur til 13. desember 2015.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com