DSC 8236

Sýning – Halldór Ragnarsson & Kristinn Már Pálmason – opnun 06.07.

Halldór Ragnarsson & Kristinn Már Pálmason

SÓKRATES

6. júlí – 22. Júlí 2018

Listamenn – Gallerí

Skúlagata 32,

101 Reykjavík.

Myndlistarmenninir Halldór Ragnarsson og Kristinn Már Pálmason opna sýningu sína Útskýringar í Listamenn Gallerí föstudaginn 6. júlí klukkan 17.

Sýningin er afrakstur samstarfs Halldórs Ragnarssonar og Kristins Má Pálmasonar sem á sitt upphaf í samræðum þeirra á milli í gegnum málverk sem flökkuðu á milli vinnustofu þeirra síðastliðið eitt og hálft ár. Þeir unnu aldrei saman á sama stað, en notuðu frekar hvað þeir fengu frá hvor öðrum í innspýtingu um hver næstu skref áttu að vera. Verkin urðu því á endanum lagskipt, ekkert ósvipað eins og er með samtal á milli tveggja manneskja sem ferðast fram og til baka á milli þeirra þangað til að vonandi finnst sameiginlegur flötur á viðfangsefninu.

Sókrates skildi fyrstur manna möguleika samræðunnar. Samskipti manna á milli voru honum það mikilvæg að hann byggði heimspeki sína á rökræðum við annað fólk með því marki að vekja hjá því vitundina um algert þekkingarleysi sem upphafspunkts hverrar nýrrar rannsóknar. Hann tók fyrir það að skrifa niður nokkurn skapaðan hlut þar sem hann leit svo á að möguleika hugsunarinnar til að vaxa væri eytt með hinu ritaða orði. Með samræðunni, aftur á móti, fæðist efinn um eigin hugmyndir og við opnum fyrir möguleikann á breytingu. Samræðan er svæði tilrauna og spilltra hugmynda, aðlaðandi staður til að hefja samvinnu, og í því samhengi hafa þeir Kristinn og Halldór ákveðið að opna verk sín fyrir áhrifum hvors annars.

Framlag Halldórs og Kristins blandast vel saman í þessum verkum einfaldlega út frá að sýn þeirra á myndlist almennt er lík þó að verk þeirra sé ólík. Halldór vinnur að mestu með tungumálið í sinni myndlist sem hann notar í óspart í endurtekningum á orðum/setningum sem minna oft á möntrur. Í gegnum þessar endurtekningar missir tungumálið vægi sitt í tengingu við kannski augljós viðfangsefni og út frá afbyggingunni tekur merkingin nýja stefnu í huga áhorfanda. Kristinn hefur í sinni myndlist búið sér til nýtt tungumál í gegnum tákn sem eiga ekki alltaf beina skírskotun í veruleikann. Og það er einmitt í gegnum þessi óræðu tákn á strigum Kristins þar sem samtal listamanns og áhorfandans myndast.

Bæði Halldór og Kristinn leita út fyrir efnislegan heim okkar þar sem allt er áþreifanlegt en þó á sama tíma óútskýranlegt. List er ein leið til að skilja heiminn í kringum okkur þar sem hún getur speglað stöðu okkar í honum. Í þessari sýningu reyna Halldór og Kristinn að endurræsa þessa fyrirframgefna þekkingu sem við höfum á heiminum, ekkert ósvipað eins og Sókrates gerði áður við viðmælendur sína.

——-

Halldór Ragnarsson er fæddur 1981 í Reykjavík. Hann lauk B.A. gráðu (2007) og M.A. gráðu (2014) frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands eftir að hafa numið heimspeki áður við Háskóla Íslands.

Hann á að baki fjölda einkasýninga ásamt því að hafa tekið þátt í mörgum samsýningum; bæði hér og erlendis.

www.hragnarsson.com

 

Kristinn Már Pálmason er fæddur 1967 í Keflavík. Hann stundaði nám við Myndlista og handíðaskóla Íslands (1994) og The Slade School of Fine Art, University College London (1998 – MFA). Kristinn Már á að baki fjölda einkasýninga auk þátttöku í samsýningum og samvinnuverkefnum hér heima og erlendis. Hann hefur komið að ýmiskonar menningarstarfsemi og er t.a.m. annar stofnenda og sýningastjóri Anima gallerís í Reykjavík 2006 – 2008 og einn af stofnendum og stjórnarmeðlimum Kling & Bang gallerís.

www.kristinnmp.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com