Sýning Guðmundu í Anarkíu

DSC06794 (2)

 

Guðmunda Kristinsdóttir: Endalaust

 

Laugardaginn 7. febrúar kl. 15 opnar Guðmunda Kristinsdóttir myndlistarsýninguna Endalaust í Anarkíu listasal í Kópavogi. Þar sýnir Guðmunda málverk sem unnin eru með olíulitum og blandaðri tækni. Við opnunina mun Sönghópurinn Norðurljós undir stjórn Arnhildar Valgarðsdóttur syngja nokkur lög kl. 15.

 

Í málverkum Guðmundu er sterk tenging við óbeislaða náttúru þar sem frumkraftar takast á. Umbrot og óstöðugleiki, djörf litabeiting í bland við ábúðarmikla áferð skapa málverk sem kalla fram í hugann hraun, eldgos, jökla, grimmt hafið eða þrumandi himin. En jafnframt því að vísa til hins stórbrotna, beinir Guðmunda samtímis sjónum að því smágerða í náttúrunni og þeim öflum sem þar eru að verki. Ekki er þó um að ræða landslagsmálverk í venjulegum skilningi, heldur verk sem krefjast sjálfstæðrar tilvistar. Málarinn lætur verkið leiða sig í óvissu eigin athafna, það sem birtist á léreftinu eru átök málarans við sjálfan sig og hliðstæða sífelldra átaka náttúraflanna en ekki lýsing þeirra eða eftirmynd. Efnisnotkun Guðmundu er áhugaverð og frumleg, hún blandar ólíkum aðskotaefnum í olíulitinn, allt frá eldfjallaösku til pappírs, og opnar það nýja vídd til túlkunar verkanna og skapar ótrúlega margslungna áferð.

 

Guðmunda Kristinsdóttir lauk námi í kennaradeild  Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hefur einnig sótt nám í Myndlistarskóla Kópavogs og hjá Bjarna Sigurbjörnssyni og Serhiy Shavchenko, auk námsferða til Danmerkur og Ítalíu. Hún hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum.

 

Sýningin stendur til 1. mars.

 

Anarkía listasalur er til húsa í Hamraborg 3 í Kópavogi (inngangur að norðanverðu). Þar er opið þriðjudaga til föstudaga kl. 15-18 og kl. 14-18 um helgar.

 

 

gudmundakr@internet.is

 

www.gudmunda.com

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com