Sýning Freyju Eilífar Logadóttur: Litaðu og lærðu um íslenska nútímalist, verður opnuð fimmtudaginn 5. mars í Borgarbókasafninu
Litaðu og lærðu um íslenska nútímalist
Sýning á bókverki Freyju Eilífar Logadóttur í Borgarbókasafninu, Tryggvagötu 15 – sýningin stendur frá 5.mars – 7.apríl.
Litaðu og lærðu um íslenska nútímalist er bókverk sem inniheldur 94 útlínuteikningar eftir verkum íslenskra myndlistarmanna. Freyja Eilíf Logadóttir teiknaði myndirnar, hannaði forsíðuna og gaf verkið út á útskriftarsýningu úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands í fyrra vor.
Litaðu og lærðu um íslenska nútímalist fjallar á áhugaverðan hátt um hvernig hægt er að nálgast myndlist á jafn hversdagslegan hátt og í formi listabókar. Bókin er þátttökuverk sem á sér sjálfstætt líf sem persónuleg eign fyrir utan stofnanarými myndlistar.
Bókin var gefin út í 300 eintökum. Örfá eintök eru eftir og verða þau til sölu í safnbúð bókasafnsins á meðan sýningu stendur. Öll eru þau númeruð og undirrituð af listamanninum.
Freyja Eilíf Logadóttir hefur komið víða við á stuttum myndlistarferli sínum. Hún opnaði sýningarýmið Ekkisens í gamalli kjallaraíbúð á Bergstaðastræti 25B í fyrrahaust. Hún stofnaði einnig tímaritið Listvísi – Málgagn um myndlist ásamt Birtu Þórhallsdóttur og ritstýrði fjórum tölublöðum sem komu út á árunum 2012-2014. Hún hefur haldið reglulegar einkasýningar frá árinu 2010 og var félagsmeðlimur í starfsemi Gallerí Crymo árið 2010. Sýningin í Borgarbókasafninu er níunda einkasýning Freyju.
Listasmiðja fyrir börn.
Freyja Eilíf mun einnig annast smiðju fyrir börn í tengslum við sýninguna sunnudaginn 8. mars kl. 15. Þar verður litað og spjallað um íslenska myndlist.
Sýning er opin á afgreiðslutíma bókasafnsins: Mánudaga-fimmtudaga 10-19, föstudaga 11-18 og um helgar 13-17.