Drifavid

Sýning á verkum Drífu Viðar í safnaðasal Neskirkju

16. ágúst – 22. nóvember 2020

Fyrr á þessu ári var boðið til dagskrár í tveimur hlutum um listferil og líf Drífu Viðar í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá fæðingu hennar. Sýningin nú er seinni hluti dagskrárinnar um Drífu sem kom víða við í íslensku menningarlífi áður en hún lést langt fyrir aldur fram 1971. Myndlistin skipaði þar hvað stærstan sess og á sýningunni í safnaðarsal Neskirkju er dregin upp mynd af þróun listar Drífu Viðar allt frá því hún stígur sín fyrstu skref til síðustu verka hennar þar sem persónuleg tjáning og túlkun hefur náð fullum þroska. Megináhersla er þó lögð á abstraktverkin og mannamyndir hennar. Sýningunni er ætlað að varpa ljósi á stuttan en merkan feril litríkrar listakonu og gerð tilraun til þess að rétta hlut hennar í íslenskri listasögu. Fjölskylda Drífu stendur að sýningunni. Sýningarstjóri er Aðalheiður Valgeirsdóttir.

Drífa fæddist í Reykjavík 5. mars 1920. Hún var fjölhæf listakona sem lét til sín taka á mörgum sviðum. Hún var ein fárra kvenna sem fór utan til náms í myndlist um miðbik tuttugustu aldar en hún stundaði myndlistarnám í New York og París á fimmta áratugnum og komst þannig í beina snertingu við hringiðu heimslistarinnar. Drífa hlaut sína fyrstu tilsögn í myndlist hjá Jóni Þorleifssyni listmálara á árunum 1940–1942. Fyrir hvatningu Jóns fer hún til New York til frekara náms í myndlist og hún fær inngöngu í Art Students League haustið 1943. Íslenskir listnemar höfðu almennt farið til í Kaupmannahafnar og þaðan til Frakklands, Þýskalands eða Ítalíu. Þegar heimsstyrjöldin síðari braust út varð breyting á, Evrópa lokaðist og Bandaríkin urðu eini möguleikinn fyrir þá listnema sem stefndu á framhaldsnám. Drífa og Nína Tryggvadóttir sigldu saman vestur um haf og þær ásamt Louisu stunduðu nám við sama skóla í New York og milli þeirra var góður vinskapur. Alþjóðlegt andrúmsloft ríkti í borginni því þangað höfðu safnast listamenn sem flúið höfðu Evrópu. Abstrakt-expressjónismi blómstraði í myndlist þar sem krafan um fyrirmyndina vék fyrir nýju myndmáli sem var án tengingar við hlutveruleikann. Drífa staldraði stutt við í Art Students League og fór í einkaskola Amédée Ozenfant og síðar til Hans Hofmann veturinn 1944. Hofmann var eftirsóttur kennari sem hafði áhrif á margar kynslóðir listamanna.

Eftir ársdvöl á Íslandi hélt Drífa til Parísar til frekara náms í myndlist árið 1946. Aðalkennari hennar þar var Fernand Léger en honum hafði hún kynnst í New York. Drífa var leitandi í list sinni og hneigðist snemma að abstraktlist. Á það hefur verið bent á að líklega séu þau verk sem Drífa vann á námsárum sínum í New York fyrstu abstraktverk íslenskrar listakonu.

Árið 1971 var haldin fyrsta og eina einkasýning Drífu meðan hún lifði í Bogasal Þjóðminjasafnsins en hún lést aðeins fáum vikum síðar. Sýningin hlaut góðar viðtökur og sannaði að hún ætti fullt erindi inn á íslenskan myndlistarvettvang. Árið 1975 stóð fjölskylda Drífu fyrir sýningu á verkum hennar í Bogasal Þjóðminjasafnsins og árið 2009 var sett upp sýning í Gallery Nútímalist á Skólavörðustíg.

Sýningin í safnaðarsal Neskirkju er opin mánudaga til föstudaga  kl. 9-16 og stendur til 22. nóvember 2020.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com