69A17611

Sunnudagsleiðsögn með Guðmundi Ingólfssyni

Sunnudaginn 29. október kl. 14 segir Guðmundur Ingólfsson ljósmyndari frá sýningunni Á eigin vegum. Ljósmyndir 1967 – 2017.

Guðmundur Ingólfsson er meðal fremstu ljósmyndara sinnar kynslóðar á Íslandi. Guðmundur hefur notið þess að ljósmynda á eigin vegum og á stórar filmur, landslag og byggð. Í Reykjavík hefur hann skrásett ásýnd borgarinnar og í myndum teknum í úthverfum og í Kvosinni – af sjoppum og af mannlífi – birtast breytingar sem sýna þróun byggðar. Sýningin veitir yfirlit um hálfrar aldar ljósmyndaferil Guðmundar Ingólfssonar.

Guðmundur er fæddur árið 1946. Hann lærði ljósmyndun í Folkwang Schule für Gestaltung, hjá Otto Steinert í Essen í Þýskalandi á árunum 1968–1971. Þar þróaði hann myndsýn sem var byggð á hugmyndum um nýja hlutlægni í ljósmyndun. Að námi loknu fluttist Guðmundur til Reykjavíkur og stofnaði þar ljósmyndastofuna Ímynd. Á stofunni voru sett ný viðmið í fagmennsku í auglýsinga- og iðnaðarljósmyndun á Íslandi.

Titill sýningarinnar vísar til þeirra mynda sem Guðmundur hefur unnið á eigin vegum, samhliða verkefnum unnum eftir beiðni. Á sýningunni Á eigin vegum. Ljósmyndir 1967–2017 er úrval persónulegra verka Guðmundar Ingólfssonar.

Sýningarstjóri er prófessor Timm Rautert. Sýningin stendur til 14. janúar 2018.

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com