Borgarsögusafn

Sumarsólstöðuganga í Viðey föstudaginn 21. júní

Föstudaginn 21. júní verður efnt til sólstöðugöngu í Viðey í tilefni af því að þá er sólargangur lengstur hér á norðurhveli jarðar. Guðbrandur Benediktsson, safnstjóri Borgarsögusafns, leiðir gönguna og segir frá sögu eyjarinnar. Þór Jakobsson veðurfræðingur segir frá sólstöðum og hefðum tengdum þeim og Sveinn Kristinsson formaður Rauða krossins á Íslandi ávarpar göngufólk. Þá mun Árný Helgadóttir kraftgöngukona leiða léttar og hressandi æfingar.

Gengið verður á sögulegar slóðir á austurhluta eyjarinnar og staðnæmst í fjöruborðinu við varðeld. Gestir eru hvattir til að taka með sér nesti og drykk til að njóta við varðeldinn áður en gengið verður til baka að ferjunni. 

Gönguleiðin er hæfileg, gengið er að mestu leyti á sléttu undirlagi en mælt er með góðum skóm og skjólgóðum jakka.

Siglt verður frá Skarfabakka kl. 20:00 og til baka ekki seinna en kl. 23:00.

Gjald í ferjuna fram og til baka eru 1.600 kr. fyrir fullorðna, 1.450 kr. fyrir eldri borgara og nemendur og 800 kr. fyrir börn 7 – 17 ára í fylgd fullorðinna. Börn 6 ára og yngri sigla frítt.

Við minnum á að handhafar Menningarkorts Reykjavíkur fá 10% afslátt í Viðeyjarferjuna og handhafar Gestakortsins sigla frítt.

Viðey er hluti af Borgarsögusafni Reykjavíkur – Eitt safn á fimm frábærum stöðum.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com