
Stjórnarfundur SÍM fimmtudaginn 30. maí 2013
Stjórnarfundur SÍM fimmtudaginn 30. maí 2013 kl. 10:00-12:00
haldinn í SÍM húsinu Hafnarstræti 16.
Mættir voru: Hrafnhildur Sigurðardóttir formaður, Erla Þórarinsdóttir, Kristín Gunnlaugsdóttir, Kristjana Rós Guðjohnsen, Rósa Sigrún Jónsdóttir, Ingibjörg Gunnlaugsdóttir Kristjana ritaði fundinn.
Fundur settur kl. 10:10
- Skipan í stjórn SÍM. Erla bar upp fyrirspurn varðandi ákvörðun stjórnar frá fundi þann 15. maí s.l. um skipan varamanns, Rósu Sigrúnar, í stjórn SÍM. Rósa Sigrún óskaði eftir því að víkja af fundi á meðan umræða um skipan varamanns í stjórn fór fram og gekk hún af fundi. Málið var rætt og niðurstaðan fundarins er að standa við ákvörðun stjórnar frá síðasta fundi um skipan varamanns í stjórn. Rósa Sigrún kemur aftur á fundinn.
- Erindi frá Ásmundi Ásmundssyni. Rætt var um erindi Ásmundar. Stjórnin bókar svar til Ásmundar og er formanni falið að senda honum það formlega.
- Önnur mál. Formaður lagði til að önnur mál yrðu afgreidd áður en fundurinn sneri sér að vinnufundi vegna MU samningsins.
- Samningur Listasafns Reykjavíkur og Myndstefs. Samningur hefur verið undirritaður um greiðslur til Myndstefs um höfundarréttarvarins efnis á netinu og gildir til eins árs í senn eða þar til samningur safnarráðs við Myndstef verður undirritað.
- Bréf til listasafna. Formaður hefur sent beiðni um afrit af samningum sem gerðir eru milli safnanna og listamanna og upplýsingar um árlegan fjölda gesta safnanna til eftirfarandi: Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Akureyrar, Listasafn Árnesinga, Listasafn Reykjanesbæjar, Gerðarsafn, Hafnarborg, Listasafn ASÍ og Nýlistasafnsins. Svar barst fyrir fundinn frá Listasafni Árnesinga og Listasafn ASÍ.
- Staða Myndlistarráðs. Stjórn SÍM felur Hrafnhildi að ítreka við fulltrúa SÍM í Myndlistarráði sem eru skipaðir af stjórn SÍM, að SÍM óski eftir að fá skýrslu um stöðu mála í vinnu Myndlistarráðs um stofnun Myndlistarsjóðsins. Kristjana ber upp spurningu í ljósi þess að frétt um stjórn Hönnunarsjóðs og staða mála þar er ljós. Stjórn SÍM hefur ekki fengið neinar formlegar fréttir af stöðu Myndlistarráðs um Myndlistarsjóðs.
- Næstu fundir: Næsti stjórnarfundur er skráður 21. ágúst 2013, staðfest er að félagsfundur SÍM verður haldinn á Akureyri 11. júní 2013.
- VS- samningurinn – vinnufundur. Rætt var um MU samninginn og viðbótarkafla sem nú hafði verið þýddur. Stjórnin fer yfir þýðingu á MU samningnum (sænska), farið var yfir hvern lið og afstaða tekin til þeirra. Tillaga kom að því að breyta nafninu á samningnum sem ákveðið hafði verið: ,,Verkefnis- og sýningarlaun, skammstafað VS-samningurinn” í Þátttöku- og sýningarsamning skammstafað ÞS. Ákveðið var að Ingibjörg og Hrafnhildur vinni að nánari útfærslu á þessum þýdda Grunnsamningi MU og heimfæra hann enn frekar. Þær tillögur verða bornar undir stjórn á næsta stjórnarfundi.
Fundi slitið kl. 12.