Steingrímur G

Steingrímur Gauti – STUND í Sal íslenskrar grafíkur

Myndlistarsýning í Sal íslenskrar grafíkur
Steingrímur Gauti – STUND
Salur íslenskrar grafíkur, Hafnarhúsi (Tryggvagötu 17, 101 Reykjavík) 11.2.-26.2
Opnun 11. febrúar kl. 15-18
Salur íslenskrar grafíkur er opinn gestum og gangandi frá kl. 14-18, miðvikudag til sunnudags. Lokað er mánudaga og þriðjudaga.
Steingrímur Gauti útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands 2015 og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga síðastliðin ár. Þetta er hans önnur einkasýning.
Þegar málað er málverk þá er það eitthvað sem ekki oft er gert. Málverk er eitthvað sem stendur fyrir utan hversdagslegan veruleika. Þegar allt er á hreyfingu þá er málverk kyrrt og þögult. En málverkið er ekki kyrrt og þögult eins og þægt barn, heldur öfugt. Málverkin hér ögra líðandi stund. Það er öðruvísi tími falinn í þessum verkum en tíminn úti á götu, inni í stofu, upp í rúmi, þar sem þú liggur með skjá á hreyfingu potandi í hann. Tíminn hér er tími málarans, tími áhorfandans, ekki snerta, bara horfa, tær tími, sem lifir okkur öll. 
Málverkið eins og við þekkjum það kemur frá tveimur stöðum – hellum í suður Frakklandi þar sem fólk fæddist fullkomir listamenn, og síðar frá hefðarmönnum endurreisnarinnar þar sem málverk þjónaði oft tilgangi. Tvennt ólíkt. Eitt er kapitalísk tjáning, keypt upp á vegg úr höndum fátækra manna. Hitt er byltingarkennd gjörð, eitthvað sem er hér núna fyrir framan þig, ókeypis, þvert á leiðandi ör samfélagsins.
Vissulega eru verkin föl, en efnið sem Steingrímur Gauti leggur í þessa hluti, þessar myndir – er úr eigin vasa: tími, ágiskun, ástundun, reynsla, hræðsla, barneignir, blíða, nafngift, að vera svo lágur að ekkert kemst á milli þín og botnsins, alúð, frelsi – frelsi eins og við þekkjum það oftast ekki.
Það eru allskonar svindl í málaralist, nema þegar verkið er komið upp á vegg. Þá stendur maður nakinn í ljósinu, allir vasar úthvolfdir og oft tómir.” -Starkaður Sigurðarson
WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com