Rumfatalagerinn

Steingrímur Eyfjörð opnar sýningu í Kompunni

Sunnudaginn 10. sept. kl. 14.00 opnar Steingrímur Eyfjörð sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.  Sýningin stendur til 30. sept. og er opin daglega kl. 14.00 – 17.00 þegar skilti er úti.

 

RÚMFATALAGERINN – WhereThatPlaceIsSomehowGettingTheAmericanFeelingRight nefnist einkasýning Steingríms Eyfjörð í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Titill sýningarinnar er fenginn úr verkinu „Conversation with Brad and Asi“ frá árinu 2002 og var upprunalega hugmyndin að því verki að taka upp samtal á milli Steingríms Eyfjörð, ameríska kvikmyndagerðamannsins Bradley

’s Gray og íslenska listamannsins Ásmunds Ásmundssonar, þar sem þeir ræddu um “síð-ameríkaníseringuna“ (e. post – Americanization) eins og hún birtist þeim í samtímanum á Íslandi. Upphaflega hugmyndin var að nota myndbandið til uppsetningar á sýningu í Nýlistasafninu í Reykjavík en eins og listamaðurinn orðaði það: „virtist vídeóið vera hörmung, svo það varð hráefni fyrir málverk“. Útkoman að verkinu er einskonar konkretljóð sem málað er á appelsínugulan segldúk og er nýttur sem sýningartjald. Letrið sem Steingrímur valdi við textagerðina er fengið úr þýsku kvikmyndinni Die Nibellungen“ Fritz Lang frá 1924 en þeirri mynd er varpað á sýningartjaldið og skapar samtal á milli hins forna germanska menningararfs sem íslendinagar eiga rætur að rekja til og hins ameríska menningararfs sem einkennir íslenskan samtíma.

 

Steingrímur Eyfjörð (f. 1954) er einn fremsti listamaður sinnar kynslóðar sem kom fram á áttunda áratugnum á Íslandi og hefur verið virkur þátttakandi í íslensku listalífi æ síðan. Steingrímur vinnur með ólíka listmiðla, t.a.m. ljósmyndun, málverk, teiknimyndasögur, skúlptúra, gjörninga, innsetningar og vídeóverk. Verk hans byggja gjarnan á hugmyndafræði sem vísa í þjóðsögur, Íslendingasögur, tískuiðnaðinn, trúarbrögð, dulspeki, menningarfræði o.fl. Árið 2006 hélt Listasafn Íslands yfirlistssýningu á verkum hans og árið 2007 var hann fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum. Steingrímur hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir sína listsköpun í gegnum árin og má þar nefna menningarverðlaun DV árið 2002, íslensku sjónlistaverðlaunin árið 2008 og í ár fékk hann nafnbótina bæjarlistamaður Hafnarfjarðar.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com