7678d762 41c9 42a7 A1c9 9c3bcc4333b4

Stefán Jónsson kinkar kolli til Kjarvals

Eilíf endurkoma: Stefán Jónsson kinkar kolli til Kjarvals
Sunnudaginn 7. ágúst kl. 14 á Kjarvalsstöðum

Stefán Jónsson myndlistarmaður sýnir og segir frá höggmyndaröð sinni Kjarvalar sem verður sýnd á Kjarvalsstöðum til 21. ágúst. Höggmyndirnar byggja á túlkun Stefáns á landslagsmálverkum Jóhannesar S. Kjarvals og á hver og ein höggmynd sér upphafspunkt í einhverju þeirra verka. 

Í verkunum leyfir listamaðurinn litaspjaldi og áferð málverkanna að gefa sér hugmyndir að efnisvali fyrir höggmyndirnar auk þess sem hann stílfærir verkin og færir þau í þrívíðan búning. Með þessu skapar hann nýja og nútímalegri umgjörð um landslagsheim Kjarvals og býður um leið upp á nýja nálgun við verk hans.

Verkin eru unnin úr ólíkum efnum eins og gifsi, bronsi, gólfefnum, baðherbergisflísum og garni. Samhliða hefur Stefán unnið grafíkmyndir þar sem hann skeytir saman eigin höggmyndum, landslagsmálverkum Kjarvals og ljósmyndum af þeim báðum.

Stefán er fæddur á Akureyri 1964. Allan sinn feril hefur hann búið til höggmyndir sem sækja andagift í listasöguna. Hann gengur inn í málverk annarra listamanna og vinnur úr því sem hann upplifir og sér og túlkar það í höggmyndum. Hann hefur leitað fanga jafnt til íslenskra og erlendra myndlistarmanna. Lengst af notaði hann Legókall sem staðgengil manneskjunnar í verkunum sem hann vann út frá og má segja að hann hafi verið það sem tengdi verkin myndrænt saman. Í upphafi voru verkin fremur smá með áherslu á manninn fremur en umhverfið. Síðan þróuðust verkin út í hrein þrívíð landslagsverk og Legókallinn hvarf.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com