Forsíða

Starfsáætlun 2015

Starfsáætlun SÍM fyrir starfsárið 2015 – 2016

Stjórn SÍM vinnur að hagsmunamálum listamanna. Á starfsárinu 2015-2016 leggur stjórn SÍM áherslu á herferðina VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM.

 VIÐ BORGUM MYNDLISTARMÖNNUM

Helsta baráttumál þessa starfsárs og komandi ára snýr að starfsumhverfi myndlistarmanna og hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar.

Settur var af stað starfshópur á vegum SÍM og helstu listasafna landsins í byrjun árs 2015. Starfshópnum er ætlað að móta tilögu að launasamningum fyrir listamenn sem sýna í söfnum á Íslandi sem rekin eru eða styrkt af ríki eða sveitarfélögum. Starfshópnum er ætlað að skila inn fyrstu drögum að tillögu þann 24. apríl 2015 og lokatillögu þann 9. júní 2015. Starfshópurinn ætti að hafa til hliðsjónar launaviðmið í samningum opinberra listamanna og safna í norrænum ríkjum, svo sem MU samningnum, svo og öðrum löndum sem starfshópurinn telur ástæðu til að bera saman við kjör listamanna hér á landi.

Áætlað er að kynna félagsmönnum drög að samningi á félagsfundi lok ágúst. Til þess að fylgja drögunum að samningnum eftir og kynna hann fyrir listamönnum og almenningi hefur stjórn SÍM ákveðið að setja af stað herferðina Við borgum myndlistarmönnum. Áætlað er að hafa opinn fund í Iðnó þann 18. september nk. þar sem sérstök heimasíða fyrir herferðina verður kynnt. Heimasíðan inniheldur drög að samningi sem starfshópurinn hefur unnið, helstu niðurstöður úr starfskönnuninni sem SÍM stóð fyrir á seinasta ári, stuðningsyfirlýsingar frá BHM, listasöfnum landsins, Myndlistarráði, Kynningarmiðstöðinni, systrafélögum frá Norðurlöndunum og Bandalag íslenskra listamanna. Einnig mun stjórn SÍM biðja listfræðinga og fræðimenn að skrifa greinar sem við munum birta á heimasíðunni. Ásdís Spanó er verkefnastjóri starfshópsins, Berglind Helgadóttir sér um að taka saman helstu niðurstöður úr starfskönnuninni og Helga Óskarsdóttir sér um hönnunina á heimasíðunni.

Markmið herferðarinnar er að fá mennta- og menningarmálaráðherra og þau sveitarfélög sem reka listasöfn að undirrita samninginn og auka fjármagn til safnanna til þess að söfnin geta greitt listamönnum samkvæmt samningnum.

Formaður SÍM og verkefnastjóri starfshópsins munu bjóða safnstjórum landsins að fara með þeim á fund til þeirra yfirmanna og kynna drög að samningi.

LAUN STUNDAKENNARA

Formenn félagasamtaka listamanna á Íslandi hafa fundað vegna launa stundakennara. Í lok apríl 2015 var send út könnun til félagsmanna til þess að fá heildarmynd um stöðu stundakennara. Ákveðið var að að setja saman starfshóp sem mun vinna að launasamningi fyrir stundarkennara. Stjórn SÍM hefur tilnefnt Eirúnu Sigurðardóttur og mun SÍM greiða fyrir fundarsetu hennar í starfshópnum. Eftirfarandi listamenn eru í starfshópnum; Páll Baldvin Baldvinsson, Hörður Lársson , Páll Ragnar Pálsson og Sigrún Grendal.

KYNNINGARMIÐSTÖÐ ÍSLENSKRA MYNDLISTARMANNA

Stjórn SÍM vill beita sér fyrir því að stjórnvöld efli rekstur KÍM og skerpi á hlutverki stofnunarinnar. KÍM er sérhæfð kynningarmiðstöð sem gegnir veigamiklu hlutverki við kynningar á listamönnum, m.a. í tengslum við þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum. Stjórn SÍM telur að það sé nauðsynlegt að endurskoða umsóknarferlið Feneyjartvíæringsins áður en auglýst verður að nýju og mun fylgja því eftir að það verði gert.

LISTSKREYTINGARSJÓÐUR

Stjórn SÍM telur nauðsynlegt að efla starfsemi listskreytingasjóðs, t.d. með því að gera hann sýnilegri og styrkja umfjöllun um starfsemi hans. Stjórn SÍM vill beita sér fyrir því að fylgt sé lögbundnum ákvæðum um að 1% af kostnaði við opinberar byggingar sé varið í myndskreytingar. Liður í þessari eftirfylgni felst í virku samtali við félagsmenn SÍM og mun stjórnin óska eftir ábendingum um mál sem taka þarf til skoðunar.

Einnig mun stjórn SÍM hvetja Reykjavíkurborg til að huga að stofnun listskreytingasjóðs Reykjavíkurborgar. Seinustu tíu ár hefur mikið verið byggt af opinberum byggingum á vegum Reykjavíkur, t.a.m. skólabyggingum. Rannsóknir sýna að myndlist er nauðsynlegur hluti af starfsemi skóla á öllum stigum og myndlæsi lykilþáttur í uppeldishlutverki stofnanna. Meiri samtímalist í opinberum byggingum stuðlar auk þess að betri líðan allra starfsmanna. Listskreytingasjóður Reykjavíkurborgar myndi tryggja að þessi mikilvægu atriði myndu ná fram að ganga.

BHM

Á aðalfundi BHM þann 22. apríl 2015 var umsókn SÍM að verða aðildarfélag BHM samþykkt. BHM er bandalag hagsmunatengdra félaga eða stéttarfélaga sem starfa að fag- og vinnumarkaðslegum málefnum félagsmanna sinna. BHM styður við starf aðildarfélaga, eflir þekkingu félagsmanna á kjara- og réttindamálum og gætir hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum. SÍM mun kynna fyrir félagsmönnum þau kjör sem BHM býður upp á en þeir hafa aðgang að sjúkrasjóði, styrktarsjóði og orlofssjóði.

DAGUR MYNDLISTAR

Dagur myndlistar á þessu ári verður haldinn laugardaginn 31. nóvember og hefur Berglind Helgadóttir verið ráðin verkefnastjóri. Á síðustu árum hafa myndlistarmenn opnað vinnustofur sínar og haldið kynningar í skólum landsins í tilefni dagsins. Á seinasta ári voru fengnir fimm greinarhöfundar til þess að skrifa greinar sem snerust um starfsumhverfi listamanna sem birtust á Vísir og í Fréttablaðinu, því verður haldið áfram ásamt gerð kynningarmyndbanda þar sem farið var í vinnustofuheimsóknir. Stjórn SÍM vill áfram vinna að því að gera Dag myndlistar sem veglegastan með aðstoð félagsmanna.

HEILDARMYNDIN

Stjórn SÍM hefur gert kort af heildarmynd íslenskrar myndlistar til að bæta yfirsýn, þekkingu og skilning á samhenginu milli aðildarfélaga SÍM, félagsmanna og þeirra sem starfa við myndlist. Sett var upp bloggsíða þar sem félagsmenn og hagsmunaaðilar geta komið með athugasemdir. Stjórn SÍM mun biðja aðila sem tengjast greininni að koma með athugasemdir. Í lok árs 2015 verður unnið með texta sem fylgir kortlagningunni og fenginn verður hönnuður til þess að útbúa kort af heildarmyndinni.

STARA

Stara er vefrit sem miðar að því að efla þekkingu á myndlist á Íslandi og innra starfsemi SÍM. Stara er gefið út bæði á íslensku og ensku, og höfðar jafnt til fagfólks sem og áhugafólks um myndlist. Vefritið kemur út þrisvar á ári í apríl, september og nóvember. Vefritið er opið öllum og er aðgengilegt á heimasíðu SÍM. Ritstjórn Stara 2015 til 2017 skipa Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður SÍM, Elísabet Brynhildardóttir myndlistarmaður, Auður Aðalsteinsdóttir, JBK Ransu, myndlistarmaður og Margrét Jónsdóttir, listfræðingur. Ritnstjórn hittist tvisar sinnum fyrir hvert vefrit og er greitt fyrir fundarsetu.

NÝJAR HEIMASÍÐUR

Elísabet Brynhildardóttir hefur verið ráðin til þess að endurhanna heimasíðu SÍM og síðu Dags Myndlistar. Farið verður yfir allan texta sem er á heimasíðu SÍM og hann endurgerður ásamt því að fleiri myndum verður bætt við síðuna. Er það von stjórnar að síðan muni verða aðgengilegri og skýrari fyrir félagsmenn. Báðar heimasíðurnar voru komnar til ára sinna og var bakvinnslukerfið orðið úrelt. Ný heimasíða SÍM verður formlega kynnt á félagsfundi þann 26. ágúst nk.

Stjórn SÍM vinnur að því að fjármagna kostnað við að uppfæra UMM síðuna og er það von okkar að síðan verði komin með nýtt útlit á árinu með skilvirkari uppsetningu sem auðveldar félagsmönnum að uppfæra síðuna sína og halda við.

GESTAVINNUSTOFUR

SÍM fékk styrk frá KK nord fyrir 6 mánaða gestavinnudvöl með flugi fyrir fjóra, auk þess sem listamennirnir fá dagpeninga á meðan dvölinni stendur. Stjórn SÍM hefur haft samband við Nýlistasafnið varðandi val á einum listamanni sem mun vinna með safninu á meðan dvölinni stendur, auglýst verður fyrir einn listamann að koma og dvelja í gestavinnustofunni. Stjórn SÍM hefur síðan ákveðið að bjóða tveimur sýningarstjórum að koma og dvelja í mánuð. Stjórn SÍM hefur leitað til Birtu Guðjónsdóttur varðandi val á sýningarstjórum. Sýningarstjórarnir munu fara í vinnustofuheimsóknir til félagsmanna og er það von stjórnar að það opni nýjar dyr fyrir félagsmenn.

VINNUSTOFUR

Stjórn SÍM hefur verið að skoða húsnæði fyrir vinnustofur. Það er áhyggjuefni stjórnar að það er vöntun á vinnustofum á viðráðanlegu leiguverði fyrir listamenn. Stjórn SÍM mun halda áfram að leita að húsnæði sem er í ásættanlegu ástandi og viðráðanlegu leiguverði.

SÍM SALURINN

Stjórn SÍM mun kanna möguleika á að breyta hlutverki SÍM salarins. Stjórn SÍM er að skoða hvort það sé hægt að setja upp sýningarsal á Seljavegi, þar sem gestalistamenn gætu sett upp stuttar sýningar og félagsmenn nýtt fyrir ljósmyndatökur eða sem vinnurými.

RÁÐSTEFNA

Þann 15. til 18. október mun formaður SÍM ásamt framkvæmdastjóra fara á ráðstefnu þar sem aðildarsamtök IAA / AIAP og IAA Europe munu bera saman bækur sínar og funda um stöðu myndlistarmanna í Evrópu.

 

 

Reykjavík, 19. júní 2015.

Fyrir hönd stjórnar

Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com