Korpulfsstadir Frontjpg

Starfsáætlun 2013

Starfsáætlun SÍM.

Stjórn SÍM vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum listamanna. Á stjórnarárinu 2013-2014 vill stjórn SÍM leggja áherslu á eftirtöld verkefni:

 1. Laun og réttindi.
  A. Starfsumhverfi.
  Stjórn SÍM telur að helsta baráttumál þessa starfsárs snúi að starfsumhverfi myndlistarmanna og hvernig auka megi almennar tekjur innan greinarinnar. Á þessu ári ætlar SÍM að gera launa- og skoðanakönnun hjá félagsmönnum samtakanna, líkt og gert var árið 1995. Með slíkri könnun telur stjórn SÍM að félagið öðlist kröftugt tæki, sem nota megi í hagsmunabaráttunni og til grundvallar samningum vegna sýningarhalds (sjá lið B.).B. Laun vegna sýningarhalds. Stjórn SÍM mun beita sér fyrir því að listamenn fái laun vegna vinnu við eigin sýningar í listasöfnum og sýningarsölum hérlendis, en sú vinna hófst á síðasta starfsári og miðar áfram hægt og bítandi. SÍM vill þar horfa til sænska MU samningsins, sem listamannasamtökin í Svíþjóð (KRO) gerðu við þarlend stjórnvöld. Stjórn SÍM vill gera viðlíka verðskrá og samning fyrir listamenn að fara eftir vegna sýningarhalds. Með tilkomu slíks samnings yrði listamönnum greitt fyrir leigu á verkum vegna sýningarhalds, þeir myndu fá þóknun vegna sýningarþáttöku og verktakalaun yrðu greidd vegna uppsetningu eigin verka.
 2. Starfslaunasjóður. Nú líður að lokum þriggja ára samningstímabili vegna launasjóðs myndlistarmanna, þar sem fjöldi mánaðarlauna hefur fjölgað úr 360 í 435 mánaðarlaunum. Stjórn SÍM ætlar að ræða við stjórn listamannalauna og Mennta- og menningarmálaráðherra og vinna að því að fjölga mánaðarlaunum til handa myndlistarmönnum, svo að jafnræðis sé gætt milli listgreina innan launasjóðsins. Jafnframt vill stjórn SÍM benda á það kynjamisræmi sem er milli úthlutana í launasjóði myndlistarmanna og annara sjóða.
 3. Samstarf við Myndstef. Stjórn SÍM hefur unnið náið með Myndstefi á síðasta ári vegna samstarfs um útfærslu gjaldskrár á útlánum listasafna á verkum myndhöfunda til þriðja aðila s.s. stofnana eða sendiráða. Samkvæmt höfundarréttarlögum hafa myndhöfundar rétt til að setja slíka gjaldskrá, sem Mennta- og menninarráðuneytið myndi síðan staðfesta. Sú gjaldskrá hefur nú verið send til MMR og verður vonandi samþykkt á þessu ári. SÍM mun styðja Myndstef í áframhaldandi vinnu við hana sem og þá vinnu sem er enn í gangi um að fá safnaráð til að samþykkja gjaldskrá vegna birtingar höfundarréttarvarins efnis á netinu.
 4. Sýnileiki myndlistar
  A. Dagur myndlistar.
  Dagur myndlistar á þessu ári verður haldinn þann
  2. nóvember. Á síðustu árum hafa myndlistarmenn opnað vinnustofur sínar og haldið kynningar í skólum landsins í tilefni dagsins. Stjórn SÍM vill áfram vinna að því að gera dag myndlistar sem veglegastan. Mennta- og menningarráðuneytið hefur nú komið inn með sérstakt framlag vegna Dags myndlistar kr. 500.000 og framlag Reykjavíkurborar er sem áður kr. 200.000.
  Það er því orðið svigrúm til að gera daginn enn veglegri, ásamt því að beina sjónum út fyrir Reykjavíkurborg. Áframhaldandi kynningarstarf á Degi myndlistar ásamt því að fjölga þeim myndlistarmönnum sem kynna starf sitt í skólum er efst á lista á þessu ári.
 5. Innra starf SÍM.
  Skrifstofa SÍM. Miklar breytingar hafa orðið á síðust árum á innra starfi SÍM. Allar umsóknir hafa verið gerðar rafrænar ásamt kosningarfyrirkomulagi, gömul skjöl hafa verið vistuð á Borgarskjalasafni og skipan á skrifstofum breytt og hluti skrifstofu flutt á 2. hæð hússins. Áframhaldandi hagræðing er í bígerð hjá SÍM á árinu.
 6. Gestavinnustofur SÍM í Berlín. Samningur um gestavinnustofur í Berlín stóð frá 2010-2013. Unnið hefur verið að því að skipuleggja starfsemi SÍM í Berlín svo að vinnustofur nýtist sem best. Nú hefur hann verið endurnýjaður, en vinnustofum fækkað í þrjár úr fjórum.
 7. Samstarf
  A. Samstarf við BÍL. Samstaf við BÍL hefur reynst heilladrjúgt á síðustu árum. Þannig hefur áætlun SÍM um samstarf við BÍL í skattamálum og lottómálum gengið eftir. Skattamálin, virðisaukaskatturinn, lottómál og málefni launasjóðsins eru enn á verkefnalista BÍL og mun formaður SÍM vera í samstarfi við forseta BÍL um þau atriði.
 8. Alþjóðlegt samstarf. Unnið verður að því að styrkja samstarf við systrafélög SÍM á Norðurlöndum, þar sem hagsmunabarátta þeirra fer mjög saman við okkar. Félagsskapur myndlistarsamtaka Norðurlandanna, þar sem sæti eiga fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum ásamt Færeyjum og Grænlandi, heitir Nordisk Kunst Forbund (NKF) og funda samtökin á tveggja ára fresti. Á fundi þeirra í Kaupmannahöfn í maí 2011 var ákveðið að næsti aðalfundur samtakanna yrði á Íslandi árið 2013 og mun SÍM hafa veg og vanda af skipulagningu þess fundar. Sá fundur verður haldinn í september. Það er von stjórnar SÍM að fundurinn muni gefa greinagóða mynd af hagsmunabaráttu myndlistarmanna á Norðurlöndunum.

 

Reykjavík 15. maí 2013.

f.h. stjórnar SÍM

Hrafnhildur Sigurðardóttir

 

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com