Video Arna FB

Staðreynd 6-…Erling Eftir Örnu Vals

Staðreynd 6-…Erling Eftir Örnu Vals

Föstudaginn 4. Desember klukkan 17.00 opnar myndlistarkonan Arna Vals sýningu á videoveggnum í Verslun Erlings gullsmiðis í Aðalstræti 10.

Arna Valsdóttir nam myndlist við MHÍ og lauk framhaldsnámi frá Jan van Eyck Academie í Hollandi árið 1989. Hún hefur sýnt víða bæði hérlendis og erlendis og um þessar mundir stendur yfir sýning hennar “Yes sir I can Boekie” í Boekie Woekie í Amsterdam. Í febrúar 2015 vann hún nýtt verk fyrir Kúluna í Ásmundarsafni sem hluta af samsýningunni Vatnsberinn-Fjall+kona. Árið 2014 var hún með einkasýninguna “Staðreynd-Local fact” í Listasafninu á Akureyri. Þar stefndi hún saman  5 vídeó/söng-verkum sem hún hafði unnið inn í aðra sýningarstaði frá árinu 2008, eldra verki frá 1988 og nýju verki sem hún vann sérstakalega inn í Listasafnið. Á sýningunni varð ákveðið samtal á milli verkanna sem myndaði nýjan hljóðheim, – nýtt samhengi á nýjum stað. Sýningin var tilnefnd til Menningarverðlauna DV 2014.

Verkið sem Arna sýnir hjá Erling er í beinu framhaldi af þessum verkum sem öll byggja á því að Arna lætur reyna á staðinn sem hún sýnir í, gerir videotöku af söng-gjöning sem hún flytur í rýminu og sýnir á sama stað.

Hlynur Helgason segir um verkið:

Staðreynd 8-… Erling

Hér gefst áhorfendum kostur á að njóta nýrrar Staðreyndar Örnu Valsdóttur, þeirrar áttundu í röðinni. Þetta eru allt verk sem eiga það sameiginlegt að vera söng-gjörningar gerðir þar sem þau eru upphaflega sýnd. Nú er staðurinn gullsmíðaverkstæði Erlings Jóhannessonar í Aðalstræti 10. Verkið er í þetta sinnið tvíleikið. Í fyrra skiptið birtist Arna fyrir framan listasmiðinn og leikur sér að smíðisgripum hans fyrir framan kvikmyndavélina. Sú mynd sést á skjánum bak við seinni leikinn, þar sem hendur Örnu birtast stórar fremst í fletinum og leika með sömu munina, á meðan smiðurinn smíðar í bakgrunni, með fyrri útgáfu leiksins sér við hlið. Áhorfandinn horfir á gullsmiðinn þrefaldan, í reynd, og á skjá í skjá, tvöfaldan leik Örnu með munina, og sönginn sem tónar tvisvar við sjálfan sig. Ef áhorfandinn tekur áskoruninni, og handleikur raunverulegu hlutina fremst í rýminu, þá bætir hann sér inn í myndina — það má víst ekki bjóða honum að taka undir sönginn?

Heimasíða Örnu er: http://arnavals.net

Heimasíða Erlings er: www.erlingjohanneson.is

 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com