C2193bcb B125 4ecc 834d 0e9d5cbc4da7

Spurt og svarað: Hlynur Hallsson og Ósk Vilhjálmsdóttir, fimmtudag 30. mars í Hafnarhúsi

Fimmtudag 30. mars kl. 20 í Hafnarhúsi

Boðið er upp á samtal við listamennina Hlyn Hallsson og Ósk Vilhjálmsdóttur sem eiga verk í sýningaröðinni Hrinu. Rætt verður um tilurð verkanna, inntak þeirra og útfærslu, auk þess sem horft er til samhengis þeirra við önnur verk á ferli listamannanna sem og þróun vídeólistar almennt. Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, leiða samtalið og er gestum velkomið að taka þátt.

Hlynur Hallsson (1968), Mikilvægt (1999)
Hlynur fær fólk sem talar mismunandi tungumál til þess að tjá sig á móðurmáli sínu um málefni sem því þykir mikilvægt. Í verkinu blandast viðhorf einstaklinga til þess sem skiptir þá máli og þær brokkgengu leiðir sem í boði eru til að koma því á framfæri. Tungumál er tjáskiptaform þeirra sem skilja það og tala, en innan þess og á milli mála eru fjölmörg blæbrigði. Hlynur bendir á hversu kvik merking allra hluta er, sýnir að hún er afstæð á milli manna og menningarheima og tekur stöðugum breytingum í tíma og rúmi.

Ósk Vilhjálmsdóttir (1962), Pumpa (2012)
Á tveimur skjám er fylgst með ólíkum athöfnum, sem eru daglegt brauð en virðast við fyrstu sýn eiga fátt sameiginlegt. Þær endurspegla tæknilegar úrlausnir í landbúnaði og samgöngum sem gera okkur kleift að lifa í nútíma neyslusamfélagi. Önnur myndin er frá kúabúi þar sem kýr eru mjólkaðar með mjaltavélum, sjálfvirkum dælum, og hin sýnir tankbíl dæla eldsneyti inn í dælukerfi á bensínstöð. Þessar athafnir eru alla jafna ósýnilegar neytendum og þykja sjálfsagður hlutur en með því að beina sjónum að þeim vekur Ósk áhorfendur til umhugsunar um þá hringrás og þau kerfi sem við hrærumst í. Hún vekur máls á því hver tengsl okkar séu við gjafir náttúrunnar og hvort hringrásin í dælukerfum nútímasamfélags sé eilíf.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com