14274914 03a8 444a 9619 611a90ef3dfe

Spurt og svarað í Hafnarhúsi: Ráðhildur Ingadóttir, Libia Castro og Ólafur Ólafsson

Spurt og svarað:
Ráðhildur Ingadóttir, Libia Castro & Ólafur Ólafsson
Fimmtudag 16. mars kl. 20

Boðið er upp á samtal við listamenn sem eiga verk í sýningaröðinni Hrinu. Rætt er um tilurð verkanna, inntak þeirra og útfærslu, auk þess sem horft er til samhengis þeirra við önnur verk á ferli listamannanna sem og þróun vídeólistar almennt. Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, leiða samtalið og er gestum velkomið að taka þátt.

Libia Castro (1970) & Ólafur Ólafsson (1973): Allir gera það sem þeir geta (2008)
Verkið var unnið að beiðni Listasafnsins fyrir röð sýninga í A-sal þar sem ætlunin var að taka tengsl safnsins við almenningsrýmið utan veggja til gagnrýninnar skoðunar. Sýningarsalurinn varð að framleiðslu- og kynningarsvæði og mátti þar meðal annars sjá upptökustúdíó og klippiver þar sem Libia og Ólafur gerðu tilraunir fyrir opnum tjöldum á meðan sýningin stóð yfir. Á þeim tíma urðu til 35 myndbönd sem sýndu portrett af einstaklingum úr mismunandi þjóðfélagsstéttum og með ýmiss konar menntun og sérhæfingu.

Ráðhildur Ingadóttir (1959): Hale Bobb (1997)
Ráðhildur hefur í verkum sínum leitað leiða til að miðla eigin skynjun á kosmískum víddum alheimsins og staðsetningu manneskjunnar innan hans. Í verkinu Hale Bobb skráði hún annars vegar geómetrískar teikningar af spíralferlum og hins vegar upplýsingar um sporbraut halastjarna og hreyfingar plánetna. Skráningar þessar, á mörkum abstraktútreikninga og hlutbundins veruleika, silkiþrykkti Ráðhildur síðan á föt og bauð fólki að máta. Vídeóverkið skrásetur uppákomuna og sýnir sýningargesti klæðast fræðilegum vangaveltum sem fanga algild náttúrulögmál og óravíddir geimsins.

Viðburðurinn á Facebook.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com