Sólrún01

Sólrún og Kristín í Anarkíu

Gáttir / Landslag hugarfarsins

 Laugardaginn 17. október kl. 15 verður tvöföld sýningaropnun í Anarkíu listasal í Kópavogi. Í neðri salnum opnar Sólrún Halldórsdóttir sýninguna Landslag hugarfarsins og í efri sal er sýning Kristínar Tryggvadóttur, Gáttir.

Sólrún sýnir olíuverk unnin á árinu 2015 þar sem hún veltir fyrir sér sjónarhorni og afstöðu:
Upplifun okkar fer mikið eftir því frá hvaða sjónarhorni er horft á hlutina. Þegar flogið er yfir landið virðast mörg hundruð metra há fjöll vera flatlendi, stærri form eru ráðandi og litbrigði landsins fanga athyglina. Ef við fljúgum ofar skýjum þá þykjumst við heppin ef við sjáum glitta í landið af og til eins og örlítil myndbrot.

Í verkunum birtist landslag frá ólíkum sjónarhornum. Myndirnar virðast ólíkar, en það sem mestu skiptir er að horft er úr ólíkum áttum, úr ólíkri fjarlægð. Það er ekkert eitt rétt sjónarhorn, aðeins mismunandi afstaða. Það sem þú þekkir ertu öruggur með, hitt virðist einkennilegt og jafnvel ógnvekjandi. En því nær sem þú kemur, því skýrari verður myndin og þú öðlast möguleika á að mynda þér eigin skoðun og afstöðu.

Sólrún lauk fornámi við Myndlistaskóla Reykjavíkur 2007. Hún hefur sótt masterclass-námskeið hjá Bjarna Sigurbjörnssyni og Serhiy Savchenko á undanförnum árum. Þetta er 8. einkasýning Sólrúnar, en hún hefur sýnt bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur auk þess tekið þátt í fjölda samsýninga, verið sýningarstjóri fyrir Myndlistafélag Kópavogs, þar sem hún hefur setið í stjórn frá stofnun félagsins.

 

Verkin á sýningu Kristínar Tryggvadóttur eru monoprint eða einþrykk, en í nokkrum þeirra heldur þó leikurinn áfram með blandaðri tækni í samtali við prentið.

Gáttir vísa til ólíkra heima, hugar eða veruleika. Lífsferlið er ófyrirsjáanlegt ferðalag – ótal gáttir opna möguleika og ólíkar leiðir. Þegar lífið tekur óvæntar beygjur og augljósar leiðir lokast, koma iðulega í ljós gáttir sem áður voru faldar og opna nýjar leiðir til þroska. Þá ríður á að koma auga á þær og þora að stíga inn og kanna ókunnar slóðir, annars glatast tækifærin sem þar kunna að bjóðast.

Litlar glufur eða víðar gáttir, hrörlegar hurðir eða glæstar, segja lítið til um það sem inni fyrir býr – óvíst er hvort á bak við tignarlega bogagáttina felist fegurri heimur en sá sem liggur innan við fjalahurðina.

Kristín er ein þeirra listamanna sem standa að Anarkía listasal. Hún tók myndlist sem valgrein i Kennaraháskóla Íslands og stundað síðan nám í Myndlista- og handíðaskólanum, Myndlistaskóla Reykjavíkur og Myndlistarskóla Kópavogs. Hún hefur unnið með innlendum og erlendum myndlistarmönnum, farið í námsferðir til Danmerkur og Ítalíu og sótt málstofu um listasögu og heimspeki. Kristín er félagi í SÍM og Íslenskri grafík og á að baki fjölda einka- og samsýninga hérlendis og erlendis.

Báðar sýningarnar standa til 8. nóvember 2015. Anarkía er til húsa í Hamraborg 3, Kópavogi (aðkoma að norðanverðu). Opið er alla daga nema mánudaga, kl. 15 – 18.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com