11856541 1614551945460226 5191912639124441578 O

Solids – nettenging milli listamanna og almennings.

Facebooksíðan Solids er sjálfstæður vettvangur fyrir listamenn til að setja inn verk sín til að auðvelda nálgun áhugasamra við myndlistina. Solids virkar þannig eins og sýningarsalur á netinu og þar skapast jafnframt tækifæri fyrir almenning að kynna sér það sem er meðal annars í gangi í myndlist í dag.

Staðreyndin er því miður sú að íslenska myndlistarsenan er mjög falin. Miðað við þann fjölda starfandi listamanna þá eru alltof fá gallerí í Reykjavík, sér í lagi þau sem sýna verk starfsungra listamanna. Ekki verður hjá því komist að minnast í þessu samhengi á skerðingu fjárveitinga ríkisins til Myndlistarsjóðs, sem listamenn, listhópar og gallerí sækja styrki í til að halda áfram vinnu sinni og rekstri. Það þarf því að undirstrika mikilvægi þess að myndlist sé sýnilegri. Myndlist er nauðsynlegur þáttur í menningu okkar, hún hefur áhrif á önnur skapandi svið og öfugt.

Myndlistin á alltaf erindi til almennings, listamenn eiga í verkum sínum samtal við áhorfandann. Það er því mikilvægt að vettvangur fyrir slíkt samtal sé til staðar. Það er sterkur kjarni í íslensku myndlistarsenunni í dag og mikil sál sem við viljum að almenningur fái notið. Þar sem ekki er mikill sýnileiki þá veit almenningur ekki endilega hvert hann á að leita ef áhugi er fyrir því að fjárfesta í listaverkum. Solids er því ætlað að bæta við þá flóru sem sýnir myndlist í dag, þar sem efnilegir listamenn þurfa vettvang án þröskuldar til að koma list sinni á framfæri. Tilgangur Solids á Facebook er að auðvelda aðgengi fólks að þeim hluta myndlistarheimsins, sem er í heild sinni virkilega spennandi og margbrotinn hér á landi.

Slagorð Solids síðunnar ,,we turn floating things into solids”, vísar í vinnu listamanns sem umbreytir hinu huglæga í fast form.

 

facebook síða

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com