Birta Ung  2

SMIÐUR EÐA EKKI

Sýning um Birtu Fróðadóttur (f. 1919 d. 1975) húsgagnasmið og innanhússarkitekt 

í Listasal Mosfellsbæjar

Fimmtudaginn 25. ágúst kl. 17 opnar í Listasal Mosfellsbæjar sýning um ævi og verk Birtu Fróðadóttur, en hún var fyrsta konan hérlendis sem var menntuð í innanhússarkitektúr og var þar að auki með sveinspróf í húsgagnasmíði. Birta var dönsk að uppruna og kom hingað til lands og settist að í Mosfellsdal árið 1945. Birta og maður hennar Jóhann Kr. Jónsson stofnuðu og ráku í áratugi gróðrarstöðina Dalsgarð. Þekktasta verk Birtu á sviði innanhúss- og húsgagnahönnunar eru innviðir Gljúfrasteins – heimilis Halldórs Kiljans Laxness.  Þar teiknaði Birta skrifpúlt fyrir nóbelskáldið auk þess að vera hjónunum sérlegur ráðgjafi við innanhússskipulag s.s. efnis- og litaval og val á húsgögnum og húsbúnaði. Á sýningunni verða sýnd sveinsstykki Birtu úr húsgagnasmíðinni og skrifpúlt Halldórs Laxness auk vinnuteikninga, skólaverkefna og ljósmynda.

Á sínum tíma bjó Birta yfir fágætri og framandi sérþekkingu á sviði handverks og hönnunar hér á landi. En starf hönnuðarins varð í tímans rás að lúta í lægra haldi fyrir stóru búi og barnaskara og þar af leiðandi urðu verk hennar ekki mörg. Eitt af markmiðum sýningarinnar er að halda sögu Birtu á lofti með því að varpa ljósi á þau fáu en merku verk sem eftir hana liggja.

Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir arkitekt

Sýningin stendur yfir til 17. september og er opin virka daga kl. 12-18 og laugardaga kl 13-17.

Laugardaginn 27. ágúst kl. 13 verður leiðsögn um sýninguna í fylgd sýningarstjóra.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com