Sím.listamenn

Skýrsla stjórnar flutt á aðalfundi SÍM, 22. Júní 2020

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var 7. maí 2019. Ellefu stjórnarfundir voru haldnir á tímabilinu, fjórir formannsfundir. Formaður SÍM tók sæti í menningar-, íþrótta- og ferðamálanefnd Reykjavíkurborgar. Aðalmaður er forseti BÍL.

Borgum listamönnum. Búið er að semja við öll söfnin vegna samnings um að borga listamönnum. Þetta fyrsta skref þarf að stækka og mun stjórnin vinna að því á næstu tímabilum.

Það er lítið að segja um ARKIV-ið annað en að hönnunargallar komu í ljós við notkun þess og því þarf mikið að koma til svo það komi að fullum notum og stjórn SÍM vill ekki setja meiri peninga í ARKIV, þetta er mál fyrir framtíðina.

ARTOTEK er samvinnuverkefni SÍM og Borgarbókasafnsins og er virkilega að nýtast þeim vel sem þar eiga verk. Talsverð eftirspurn er eftir myndlistarverkum og sumir listamennirnir anna vart eftirspurn.

STARA var síðast gefið út í desember 2019 á íslensku og ensku. Ritið hefur mikið og oft verið rætt á stjórnarfundum, ekki síst hvort ritið eigi rétt á sér í þeiri mynd sem það er í núna. STARA er ekki lengur hagsmunablað SÍM, og stjórnin hefur lagt til að breyta þurfi rekstrarforminu. Ef þið hafið spurningar varðandi STARA væri gott að beina þeim að Starkaði Sigurðssyni, ritstjóra STARA 2018 og 2019.

SÍM Residency – Gestavinnustofuprógramm. Hinu mikla starfi sem unnið var á Seljaveginum við flutning á gestaíbúðinni milli hæða er lokið í bili. Engin átti von á að fara í þessa framkvæmd sem kostaði fúlgu fjár og olli margskonar erfiðleikum. En þessi aðgerð var gerð að kröfu eldvarnareftirlitsins. Martinas Petreikis er verkefnastjóri SIM Residency og hefur hann komið með mikið af nýjum hugmyndum og mikinn metnað inn í gestavinnustofuprógrammið. Hann og Marcel Tarelkin, þýskur listamaður, gerðu nýja heimasíðu fyrir Gestavinnustofuna.“

Hér gerði formaður hlé á skýrslu stjórnar og Martinas kynnti nýja heimasíðu gestavinnustofunnar (https://www.sim-residency.info/), hvernig hefur gengið að fá inn listamenn eftir að residensían var flutt og tölfræði tengda auknum heimsóknum. Hér bárust kvartanir úr sal vegna lélegs hljómburðar, málið var leyst í sameiningu. Formaður þakkar Martinas og Ingibjörgu [Gunnlaugsdóttur] fyrir kynninguna og störf í þágu gestavinnustofunnar.

Þá hélt formaður áfram með skýrslu stjórnar: „Við getum verið stolt af gestavinnustofuprógramminu, þessu verkefni sem Ingibjörg [Gunnlaugsdóttir], framkvæmdastjóri SÍM, kom á fór fyrir 18 árum síðan. Það væri of langur listi að nefna alla þá sem komu að framkvæmdum við að smíða og laga nýju Gestaíbúðina, en ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum sem þátt tóku í þessu verkefni.

Vinnustofuskipti eru í boði erlendis við Finnland, Noreg, Þýskaland og Frakkland, einnig eru gestaherbergi í boði fyrir félagsmenn í Berlín – það má sjá nánar um það á heimasíðu SÍM.

Vinnustofur SÍM. Skrifstofa SÍM sendi öllum [félagsmönnum SÍM] bréf með útskýringum á úthlutunarreglum, staðsetningum og fjölda vinnustofuhúsa. Ef einhver vill fá nánari upplýsingar um málið þá vinsamlegast spyrjið Ingibjörgu [Gunnlaugsdóttur], framkvæmdastjóra SÍM.

Opnar vinnustofur. Aukning hefur verið á því að listamenn taki þátt í og skipuleggi opnar vinnustofu heimsóknir. Þetta hefur mælst vel fyrir og almenningur og listamennirnir sjálfir hafa verið nokkuð sáttir. Þetta framtak skilar sér í áhuga almennings á myndlist og störfum myndlistarmanna.

SÍM-salurinn í Hafnarstræti er auglýstur einu sinni á ári og [er] opinn fyrir félagsmenn til að sækja um að sýna þar, en sýningarnefnd fer yfir umsóknir og velur úr umsóknum og raðar niður í tímabil.

IAA fundur. Formaður og framkvæmdastjóri tóku þátt í aðalfundi IAA Europe, sem haldinn var í Bratislava að þessu sinni og voru höfundarréttarmál sérstaklega til umræðu, innheimta þeirra og gagnrýni á að þau tryggi ekki nægilega vel réttindi listamanna. Þetta var einskonar undirbúningur fyrir næsta fund en samtökin hafa unnið sameiginlega að ýmsum málefnum eins og t.d. Borgum listamönnum.

KÍM. Mikið var rætt um starfssemi KÍM á stjórnarfundum og þau vandamál sem þar komu upp. Sum þeirra tengdust Feneyjartvíæringnum og kostuðu m.a. að þáverandi framkvæmdastjóri, Björg Stefánsdóttir, fó í veikindaleyfi. Eiríkur Þorláksson, formaður stjórnar KÍM sagði af sér og skipaði ráðherra nýjan formann, Dorothée Kirch. Mikið var rætt um niðurfellingu ferðastyrkja til myndlistarmanna. Enginn fyrirvari var gefinn á niðurfellingunni. Styrkurinn féll ekki aðeins niður í það skiptið, heldur einnig næstu næsta úthlutun sem átti að fara fram seinna á árinu. Öll þessi mál hafa verið rædd bæði við nýjan framkvæmdastjóra, Auði Jörundsdóttur, og formann stjórnar KÍM, Dorothée Kirch, en báðar vilja þær gera breytingar til hins betra og gera KÍM sýnilegra myndlistarmönnum. Stjórn SÍM taldi að gott væri að auka samtal og samstarf SÍM við KÍM.

List í opinberu rými. Reykjavíkurborg hefur á stefnuskrá sinni að efna til samkeppni um listaverk í opinberu rými. Þegar hafa verið haldnar tvær samkeppnir á þeirra vegum, t.d. samkeppni í Vogabyggð og nú nýverið í Vesturbænum en þar kom beiðni frá íbúasamtökum um list í almenningsrými. Við höfum heyrt að von sé á að áframhaldandi samkeppnum og fögnum því. Allt sem telst atvinnuskapandi fyrir myndlistarmenn er að minnsta kosti skref í rétta átt. Á Sauðarárkróki stóð Byggðastofnun fyrir lokaðri samkeppni án forvals og var sigurvegarinn Rósa Gísladóttir.

Listasafn Íslands. Stjórninni var boðið í heimsókn á Listasafn Íslands til að kynna sér starfsemi Höfuðsafns Íslands. Harpa Þórsdóttir kynnti starfsemina fyrir okkur bæði það sem vel er gert og það sem betur má gera, en það er helst að húsnæðið er of lítið þannig að geymslumál safnsins eru í óviðunandi ástandi og beðið er eftir því að húsnæði safnsins verði stækkað en enginn veit hversu löng sú bið verður. Starfsfólkið er að sinna þeim verkefnum sem þau komast yfir en líkt og víða annars staðar mætti bæta við fjármagni til Listasafnsins. Þetta var bæði heillandi og sjokkerandi heimsókn, en frábært framtak Hörpu að bjóða okkur og hún vill bjóða stjórn SÍM í heimsókn ár hvert til að við fylgjumst með framgangi mála hjá þeim.

Kannanir á vegum SÍM. Á fyrsta stjórnarfundi SÍM í ár var rætt um að gera könnun á högum myndlistarmanna. Með tilkomu COVID-19 var ráðist í þá vinnu og þegar hafa þrjár kannanir verið gerðar. Endanleg úrvinnsla úr þeim er ekki lokið, rætt hefur verið um að fá hjálp sérfræðinga við þá vinnu. Það stendur til að nota kannanirnar í baráttu okkar um réttindi og hagsmuni félagsmanna. Niðurstöður úr tveimur fyrri könnunum voru sendar til ýmissa opinberra aðila og teljum við að þær hafi verið mjög gagnlegar við ákvarðanir þeirra vegna aukafjárveitingar til myndlistarmanna. Kannanirnar sköpuðu aukavinnu á skrifstofunni og vil ég þakka Vallý Einarsdóttur fyrir þolinmæði hennar vegna þessa auka álags. Sumarið 2019  fór í allskonar undirbúning, meðal annars undirbúning TORGS og ýmis önnur tilfallandi verkefni. Fundir og móttökur gesta úr ýmsum áttum, þar á meðal UNESCO. Einnig var tekið á móti Janne Siren, en hann er yfirmaður og sýningarstjóri í Albright Knox Gallery í Buffalo í Bandaríkjunum. Í samtali okkar sýndi hann strax áhuga á að hafa portfolio viðtöl við félagsmenn SÍM og hann vildi koma með fjóra sýningarstjóra til landsins, að hans sögn er mikill áhugi á íslenskri myndlist í Bandaríkjunum.

Möppuviðtöl og vinnustofuinnlit. Fyrsta möppuviðtalið var haldið í samvinnu við SÍM og Akademíu Skynjunarinnar  og kom Pari Stave listfræðingur og deildarstjóri við Metropolitan Museum í New York til landsins sumarið 2019. Tekið var á móti 40 félagsmönnum í samtal við Pari Stave, þessi viðtöl fóru fram í Hafnarstrætinu og fengu listamenn hálftíma við hver við hana. Þetta þótti takast mjög vel og var ákveðið að halda þessum viðtölum áfram. Næstur á eftir henni kom K.J. Baysa sýningarstjóri í Bandaríkjunum, samvinna var við komu hans í tengslum við Ferska vinda sem Mireya Samper stjórnar. 36 ánægðir félagsmenn fengu viðtal við Baysa. Fjórir sýningarstjórar ætluðu að koma til Íslands frá Albright Knox Gallery í Bandaríkjunum. Þeir koma til með að tala við félagsmenn, sem panta viðtöl við þau. Hópurinn ætlaði að koma í apríl, en vegna COVID-19 var för þeirra frestað en þau eru ákveðin í að koma þegar tíminn til ferða leyfir. Von var á Pari Stave aftur um miðjan júní, en vegna COVID-19 komst hún ekki þá, en nú er hún komin og til í slaginn og eiga 20 félagsmenn pantaðan viðtalstíma við Pari.

Vinnustofuheimsóknir. Æsa Sigurjónsdóttir og Hlynur Helgason fengu gesti frá Herron School of Art and Design í Bandaríkjunum. Þetta voru listfræðingar og sýningarstjórar sem vildu fara í heimsókn á vinnustofur myndlistarmanna. Heimsóknin var auglýst hjá SÍM í mars og heimsóttu þau 7 vinnustofur og spjölluðu við listamennina. Samstarf og samvinna er um þessar heimsóknir. Ég hvet ykkur til að koma með tillögur að gestum sem þið kannist við og eru á ferðinni til Íslands. SÍM býður gistingu.

Mánuður myndlistar 2019 var í höndum Vallýar Einarsdóttur, skrifstofustjóra SÍM. Að þessu sinni voru heimsóknir miðaðar við höfuðborgarsvæðið og fóru listamenn í 13 mismunandi kynningar á vegum SÍM. Eftirspurn var meiri en við gátum annað að þessu sinni.“

Hildur Elísa Jónsdóttir hefur verið ráðinn til að sjá um Mánuð myndlistar 2020. Hildur gerir

gerir ráð fyrir 25 skólakynningum, greinaskrifum og innlitum í vinnustofur nokkurra félagsmanna SÍM. Undirbúningur mánaðarins hófst í apríl 2020. Vegna Covid-19 verða ekki haldnir viðburðir á vegum Mánaðar myndlistar og verkefnið mun fara alfarið fram á netinu.

Þá tók formaður aftur til máls: „Gestalistamenn SÍM opnuðu myndlistarsýningu í Hafnarstrætinu í tengslum við Mánuð myndlistar í október 2019 undir stjórn Martynas [Petreikis], verkefnastjóra SÍM Residency.

TORG listamessa var haldin 3. október 2019 á Hlöðulofti Korpúlfsstaða og má segja að hún hafi verið vel heppnuð. Við getum þakkað það góðu gengi þeirra sem tóku þátt í TORGI og þeim fjölda gesta sem komu þessa helgi, en þeir voru um 12 þúsund. Listamennirnir voru sáttir og töldu sig hafa haft hag af þatttöku í messunni og kynningin leiddi til áframhaldandi samskipta/viðskipta við þá sem sáu verkin og kynntust listamönnunum. Gestir gátu keypt sér kaffi og meðlæti. Öllum þeim sem tóku þátt í Listamessunni þökkum við, en sérstaklega þeim sem sköpuðu aðstöðuna og koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti fyrir utan mig, skrifstofuna og Friðrik umsjónarmann. Voru það Rúrí, sem var arkitekt sýningarinnar og prófarkalesari, Jelena Antic, sem var hönnuður alls prentaðs efnis og Ástráður Helgason, kynningarstjóri TORGS. Margir koma að svona verkefni og þakka ég þeim öllum fyrir hjálpina. Næst verður TORG listamessa haldin 2. október 2020 þrátt fyrir margvíslegar óvissubreytur.

Annað tengt Hlöðuloftinu. Einkasýningar og samsýningar hafa þegar verið haldnar á Hlöðuloftinu auk annarra viðburða. Við erum að vona að hiti verður lagður í salinn á þessu ári og þá getum við skipulagt allt árið fyrir myndlistarsýningar og fleiri viðburði. Góð lýsing er það sem verður að koma sem fyrst þannig að salurinn geti nýst öllum. Ég trúi á þetta verkefni og þó það verðir ekki strax þá spillir ekki fyrir að fá Listamannahverfið í Gufunedi og á fleiri stöðum, þó þau svæði séu enn í mótun.

Húsnæðismál íslenskrar grafíkur. Í október 2019 hófust viðræður við Sif Gunnarsdóttir og Örnu Schram hjá Reykjavíkurborg um vanda Íslenskrar grafíkur. Félaginu var sagt upp leigu í húsnæði sem félagið leigði út í Tryggvagötu, þau áttu að fara úr húsnæðinu í vor þrátt fyrir að ekkert húsnæði væri í sjónmáli sem hentaði félaginu. SÍM bauðst til þess að Íslenskri Grafík aðstöðu á Korpúlfsstöðum ef félagið fengi leyfi til að vera í [núverandi] húsnæði að minnsta kosti þar til samningar um vinnustofur SÍM renna út vorið 2021. Hugsanlega verður farið í gagngerar breytingar á Korpúlfsstöðum til hagræðinga fyrir félgöin. Því miður er mál Íslenskrar grafíkur enn ekki endanlega staðfest, þó hafa munnleg loforð verið gefin af hálfu borgarinnar um flutning þeirra [Íslenskrar Grafíkur] og annað þar að lútandi.

Opinberir aðilar, samskipti og upplýsingar. Lögð hefur verið áhersla á að efla og bæta samskipti við ráðamenn í opinbera geiranum bæði hjá ríki og borg. Þar höfum við fundið fyrir skorti á þekkingu á þörfum og gildum myndlistar og myndlistarmanna. Áhersla hefur verið á að koma á framfæri markvissum upplýsingum um störf, hagsmuni og þarfir okkar. SÍM hefur í þessu skyni beðið félagsmenn að taka þátt í nokkrum markvissum könnunum á stöðu sinni og hafa niðurstöður þeirra verið rækilega kynntar fyrir ráðamönnum. Við teljum þessar upplýsingar hafa haft mikið að segja fyrir myndlistarmenn í tengslum við útfærslu COVID-lausna hjá ríki og borg. Til að ná eyrum ráðamanna þurfum við að geta tileinkað okkur tungumál þeirra. Reynsla okkar er að það sé algjörlega nauðsynlegt að geta lagt fram tölfræðilegar upplýsingar um stöðu myndlistarmanna. Til að efla málefnalegan grunn erum við að vinna nánari niðurstöður úr könnununum og hugsanlega verða fleiri slíkar sendar út í þessu samhengi. Starfshópur SÍM í þessu verkefni eru Hlynur Helgason og Rúrí, auk formanns [Önnu Eyjólfsdóttur].

Samstarf SÍM og BÍL um launamálin. Á síðasta ári settum við af stað vinnu með formanni BÍL um endurskoðun laga um Starfslaun listamanna. Meginmarkmið þeirrar vinnu eru tvö, að hækka launin upp í full laun viðmiðunarstétta og að fjölga fjölda mánaða skipulega, þannig að allar stéttir listamanna sitji við sama borð um árangur. Jafnframt er hugmyndin að koma faglegri skipan á veitingu heiðurslauna og að tryggja sérstaklega stöðu nýliða við launasetningu. Málið hefur verið kynnt Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og er í fullri vinnslu i samvinnu við sérfræðinga ráðuneytisins. Stefnt er að því að ná fram breytingum á starfslaunum á komandi þingi. Þess má geta að Kristín Helga Ríkhaðrsdóttir hefur óskað eftir samstarfi við SÍM, en hún leggur stund á MFA nám í myndlist við New York University. Hún hefur sótt um rannsóknarstyrk námsmanna vegna rannsóknar sem snýr að þeim áhrifum sem COVID-19 hefur haft á myndlistarmenn á Íslandi. Við vonum að þetta rannsóknarverkefni verði að veruleika, en það gæti nýst okkur vel í baráttu okkar næstu misserin.

 Listskreytingasjóður. Stjórn SÍM ræddi hinn mikla vanda sem Listskreytingasjóður var kominn í, vanvirðing á hlutverki sjóðsins og skorts á umsýslu með listaverkum í eigu sjóðsins. Vandræði sjóðsins eru eingöngu komin til vegna skorts á fjárveitingum til sjóðsins, en sjóðurinn hefur einungis fengið 1.5 milljón á ári frá árinu 2008 til að sinna hlutverki sínu samkvæmt þeim lögum sem gilda um sjóðinn. Ákveðið var að fyrsta skref í þessu máli væri að ná fundi með Lilju D. Alfreðsdóttur og benda henni á að þarna væri verið að höndla með og vanvirða eigur þjóðarinnar. Sameiginlegur fundur með aðildarfélögum BÍL var haldinn með Lilju og þá afhentum við henni ítarleg gögn um stöðu Listskreytingarsjóðs til upplýsingar. SÍM fékk fljótlega fund með Páli Magnússyni, nýráðnum ráðuneytisstjóra í Menntamálaráðuneytinu og skýrðum við fyrir honum stöðu sjóðsins. Hann brást strax við og tók málið í sínar hendur og talaði samdægurs við ráðherra. Ráðherra samþykkti að setja 5 milljónir króna í sjóðinn og gaf loforð um að skipa nýjan formann listskreytingarsjóðs, en hún skipaði Dorothée Kirch formann nokkru síðar, en SÍM hafði þegar tilnefnt sitt fólk í stjórn. Stjórn sjóðsins hefur þegar haft með sér nokkra fundi og vonandi kemst allt í rétt horf með nýrri stjórn. Til gaman má geta þess að umsjón með Listskreytingasjóði hefur verið í höndum Ingibjargar [Gunnlaugsdóttur], framkvæmdastjóra SÍM, síðastliðin 20 ár og hefur henni tekist þrátt fyrir allt að viðhalda sjóðnum þó að oft hafi vantað fjármagn til rekstursins.

Myndlistarráð tengdi málþing við afhendingu Myndlistarverðlaunanna og vonandi er það komið til að vera. Við óskum verðlaunahöfum til hamingju með viðurkenninguna. Myndlistarmaður ársins var Guðjón Ketilsson og Claire Paugam hlaut Hvatningarverðlaunin.

Ýmsar upplýsingar. Listasöfnunum voru send bréf þar sem farið var fram á að þau taki vefsíður sínar til endurskoðunar með tilliti til skráningar á sýningum, sögu og sýningum á listaverkaeign safnsins, að auki þurfi að bæta við ljósmyndum af sýningum. Gott aðgengi að þessum upplýsingum eru mikilvægar fyrir listamennina.

Stjórn Myndstefs var sent bréf þar sem stjórnin var beðin um að kanna gjaldskrá fyrir videó og kvikmyndaverk  myndlistarmanna. Gjaldskrá var samþykkt á stjórnarfundi, en á aðalfundi Myndstefs var óskað eftir því að stjórnin sjái til þess að gjaldskráin verði endurskoðuð. Páll Haukur á sæti í [stjórn] Myndstef fyrir hönd stjórnar SÍM.

Berlínarhópur undir forystu Egils Sæbjörnssonar og Katrínar Ingu sendi bréf til ráðamanna og SÍM þar sem hvatt var til þess að farin yrði Berlínarleiðin við að aðstoða íslenska myndlistarmenn vegna COVID-19. Ýmsir sendu SÍM bréf vegna framlags ríkis og borgar til myndlistarmanna vegna COVID. Þetta voru allt góðar ábendingar.

 „World Art Day“. Hildur Elísa, verkefnastjóri [Mánaðar myndlistar 2020], sótti um styrk fyrir hönd SÍM til Reykjavíkurborgar til að halda hátíðlegan „World Art Day“ 15. Apríl 2021. Það væri í fyrsta sinn sem þessi dagur væri haldinn hátíðlegur á vegum SÍM, en dagurinn er haldinn hátíðlegur um allan heim þann 15. Apríl ár hvert – á fæðingardegi Leonardo da Vinci. Það er komið í ljós að við fengum ekki styrkinn, en þökkum Hildi fyrir að senda inn og við erum ekki hætt þó móti blási. Takk Hildur Elísa.

Mikilvægt er að senda út kannanir til þess að kanna hagi listamanna. SÍM hefur þegar sent út þrjár kannanir en úrvinnslu þeirra er enn ólokið. Niðurstöður úr fyrri tveim könnunum vvoru sendar til menntamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar og eru taldar hafa komið að miklum notum þar. Kannanir þessar á að nýta í baráttu SÍM fyrir bættum kjörum félagsmanna og er von á nokkrum könnunum í viðbót.“

Þá kynnti Rúrí forunnar niðurstöður kannananna, en niðurstöður í könnununum eitt og tvö höfðu veruleg áhrif á aðgerðir stjórnvalda og borgar í Covid. Rúrí telur tölulegar niðurstöður séu lykilatriði í samskiptum við ráðamenn og að mikilvægt sé að félagsmenn gefi sér tíma til þess að taka þessar kannananir svo betra sé að kynna og nota niðurstöður þeirra. Þessar kannanir eru gríðarlega mikilvægt verkfæri í samskiptum við ráðamenn. Þá voru niðurstöður fyrstu tveggja kannananna kynntar á skjávarpa og svo einn hluti niðurstaða úr þriðju könnun, þ.e. sá hluti könnunarinnar sem sneri að sýningarhaldi og efnahagslegu framlagi myndlistarmanna á Íslandi. Framlög myndlistarmanna með sýningarhaldi eru aðallega þrenns konar; ´í fyrsta lagi sýningar á Íslandi sem auðga, í öðru lagi sýningar erlendis sem gagnast í því að kynna íslenska menninga og svo í þriðja lagi birtingar í erlendum miðlum, þ.e. fagtímaritum, dagblöðum, tímaritum, sjónvarpi o.s.frv. Hver er verðmiði þessara þátta? Samkvæmt könnuninni er heildarsýningarþátttaka innanlands 1721 sýning á ári hjá félagsmönnum SÍM, en erlendis 1084. Hvern virkan dag ársins eru því 3-4 listamenn að opna sýningu erlendis. Birtingar erlendis voru 1344 á ári en birtingar hérlendis voru ekki teknar með í dæmið því talan var einfaldlega of há. Sé launaverðmiði hverrar sýningar reiknaður sem 200.000 ISK, sem er allt of lág tala, verður heildartala launa vegna sýningarhalds hérlendis 344 milljónir og 433 milljónir vegna sýninga erlendis. Reiknað var með 250.000 ISK vegna birtinga í erlendum miðlum, en það gerir 336 milljónir. Samtals eru laun vegna sýninga, innanlands og utan, og birtinga í erlendum miðlum, 1.313 milljónir. Til samanburðar eru listamannalaun samtals 177 milljónir í heildina. Þar með afsannast að listamenn séu afætur og aumingjar sem liggja á atvinu annars fólks. Þessar upplýsingar verða birtar í fjölmiðlum á Íslandi og sendar til ráðamanna. Hér barst spurning úr sal um hvernig komist var að þessum launum per sýningu. Rúrí segir hana vera slumputölu, og er þá notað framlag listamanna til samfélagsins. Rúrí segist hafa viljað nota hógværar tölur þótt lokaniðurstöðurnar séu gígantískar.

Í lok fyrsta fundarliðs tók formaður aftur stutlega til máls: „ Ég vil þakka stjórnarmönnum, Hlyni Helgasyni, Páli Hauki Björnssyni, Rúrí og Starkaði Sigurðssyni ásamt varamönnum í stjórn, þeim Ragnhildi Láru Weisshappel og Freyju Eilífi fyrir gott samstarf á liðnu ári. Þeim sem eru að hætta í stjórn þakka ég fyrir gott samstarf en á þessum aðalfundi hættir Ragnhildur Lára Weisshappel sem varamaður í stjórn. Páll Haukur hættir í aðalstjórn en hann tekur til starfa í varastjórn. Nýr maður í aðalstjórn er Hulda Rós Guðnadóttir, og býð ég hana velkomna til starfa.“

Anna Eyjólfsdóttir

Formaður SÍM

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com