E27e4fbb D2d4 40ba B007 0bfbf87c385a

Sjónlýsing á SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR

Verið velkomin á sjónlýsingu á sýningum Evu Ísleifsdóttur og Sindra Leifssonar í sýningarröðinni SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR í Gerðarsafni laugardaginn 1. október kl. 15. Sjónlýsing er aðferð til að færa sjónrænar upplifanir yfir í orð og gera þannig blindum og sjónskertum kleift að kynnast sjónrænum listarverkum. Sjónlýsinguna má einnig almennt nýta til að upplifa verk á nýjan hátt og býður upp á óvæntar leiðir í myndlæsi og túlkun. Sjónlýsingin getur því hentað áhugasömum gestum á öllum aldri.

SKÚLPTÚR / SKÚLPTÚR er sýningaröð sem veitir innsýn í stöðu skúlptúrsins sem miðils í samtímanum. Hér er lögð áhersla á að kynna hugðarefni listamanna þar sem hver og einn gengur að samtali miðilsins og sögunnar á eigin forsendum. Eva Ísleifsdóttir og Sindri Leifsson leggja fram hugleiðingar um skúlptúrinn á samhliða einkasýningum. Verk og vinnubrögð kunna að vera ólík en hugsunin að baki þeim á margt sammerkt þar sem vangaveltum um mannlega hegðun, umhverfi og mótun samfélagslegs skipulags er velt upp á yfirborðið.

Eva Ísleifsdóttir vinnur með ímynd listamannsins og listaverksins. Handverkið er til staðar en gjarnan eru það ásýnd eftirmyndarinnar eða fúsksins sem haldið er á lofti og líkist fremur leikhúsmunum en upphöfðum höggmyndum. Hversdagurinn og samfélagsrýni eru henni hugleikin en dvöl hennar í Aþenu í Grikklandi hefur haft áhrif á verkin. Ekki einungis vegna tenginga við menningar- og listasöguna heldur einnig með vísun í samfélagslega stöðu okkar tíma.

Verk Sindra Leifssonar vísa einnig í handverkið en gjarnan eru það verkfærin sjálf sem nostrað er við. Sjónum er beint að vinnuferlinu með því að móta nokkuð áþekka mynd af verkfærum og máir hann þar út mörkin milli listaverksins og vinnunnar. Einföld tákn og meðhöndlun efniviðarins eru endurtekin stef í verkum Sindra en umhverfi og samfélag koma gjarnan við sögu. Sýning hans teygir sig út fyrir sýningarrýmið þar sem óljósir skúlptúrar hafa tekið sér tímabundna fótfestu í umhverfinu og er ætlað að draga fram hugmyndir um borgarskipulag og hegðun okkar í rýminu.

Sjónlýsingin er samin og flutt af Guðbjörgu H. Leaman og Þórunni Hjartardóttir, myndlistarmönnum og sjónlýsendum. Sjónlýsingin er öllum opin og er þátttaka gestum að kostnaðarlausu.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com