E32f334d 57cb 455d A777 2bf6aff56463

Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Vasulka stofa í Hafnarhúsi

Spurt og svarað:
Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Vasulka stofa
Fimmtudag 2. febrúar kl. 20 í Hafnarhúsi

Boðið er upp á samtal við listamenn sem eiga verk í sýningaröðinni Hrinu í Hafnarhúsi. Rætt verður um tilurð verkanna, inntak þeirra og útfærslu, auk þess sem horft er til samhengis þeirra við önnur verk á ferli listamannanna sem og þróun vídeólistar almennt. Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneignar og rannsókna, og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar, leiða samtalið og er gestum velkomið að taka þátt.

Sirra Sigrún Sigurðardóttir (1977), Aðlifun (2006)
Innsetning Sirru hverfist um eins konar tjald eða hvelfingu sem nánast svífur í lausu lofti yfir loftblæstri. Um leið er formið þrívíður skjár sem endurspeglar tvær vídeóvarpanir sem hringsóla inni í verkinu. Önnur sýnir fjöllistamenn leika jafnvægislistir og hin prik sem strokið er eftir grindverki með hljóðinu sem þá heyrist. Verkið var unnið inn í sýningarsali Hafnarhússins sem létt og lífrænt andsvar við hinum þunglamalega stíl hins gamla vöruhúss. Aðlifun var eitt verkanna á samsýningunni Pakkhús postulanna fyrir rúmum áratug.

Steina (1940), Tokyo Four (1991)
Fjórar aðskildar myndrásir, hver með tveimur hljóðrásum, liggja til grundvallar hinu marglaga verki Steinu þar sem allir hlutar tengjast í eina heild með samstilltu upphafi og endi. Steina skipar mikilvægan sess í alþjóðlegri framvindu vídeólistar enda hóf hún feril sinn á upphafs- og mótunarárum miðilsins og hefur æ síðan verið einn forystumanna í listgreininni. Í verkinu Tokyo Four sækir hún sjónræna uppbyggingu í heim tónlistar þar sem unnið er með tilbrigði við nokkur grunnstef. Myndefnið er fengið víða að, tilviljunarkennt að því er virðist, og meðhöndlað með ýmsum hætti – speglað, snúið á hvolf, hægt á og hraðað.

Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Árskorts Listasafns Reykjavíkur og Menningarkorts Reykjavíkur.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com