Fréttatilkynning Mynd

SÍM Gallery: TETRAD – Samsýning í SÍM salnum

TETRAD er sýning á verkum fjögurra kvenna sem hnýttust vináttuböndum strax í barnaskóla, vináttu sem hefur haldist lifandi í gegnum árin og hefur, aftur og aftur, gefið tilefni til að taka upp þráðinn þrátt fyrir fjarlæga búsetu í öðrum löndum árum saman. Það sem leiddi þennan litla hóp saman í upphafi var ábyggilega áhuginn á að teikna og skapa, hugmyndanúningur og húmor, virðing og dálæti, forvitni og fíflalæti sem þær fundu sig allar í, hver með annarri og hver á sinn einstaka hátt.

Þær voru bekkjarsystur í Vogaskóla, byrjuðu saman í tíu ára bekk og áttu heiminn…..æskuna og unglingsárin…..fóru síðan í ólíkar áttir til framhaldsnáms í Bandaríkjunum, Frakklandi, Englandi, Noregi, Finnlandi, Danmörku og Hollandi. 

Þrjár urðu myndlistamenn þær Hafdís Helgadóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir og Sigríður Ágústsdóttir en Sólveig Jónsdóttir taugasálfræðingur og frístundamálari. Í sýningunni mætast verk þeirra allra saman í fyrsta sinn, eins og fjórir sjálfstæðir þræðir sem þær hafa ræktað og spunnið áfram hver á sinn hátt og setja nú hér fram til heiðurs vináttunni, minningunum, gleðinni og elskunni.

Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 6. maí kl.15.00- 19.00 í SÍM salnum, Hafnarstræti 16, 101 Reykjavík og stendur yfir frá 6. – 21.maí 2021.

Opið verður á sýninguna alla virka daga kl.10.00-16.00 á skrifstofutíma Sambands íslenskra myndlistarmanna / SÍM.

Vinsamlega virðið gildandi sóttvarnarreglur

ALLIR VELKOMNIR.

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com