Corrections Leiðréttingar

Sigurður Árni Sigurðsson opnar sýningu sína Leiðréttingar/Corrections í Hverfisgalleríi

Laugardaginn 25. maí næstkomandi kl 16.00 opnar Sigurður Árni Sigurðsson sýningu sína Leiðréttingar/Corrections í Hverfisgalleríi ásamt því að útgáfu veglegrar bókar um Leiðréttingar Sigurðar Árna verður fagnað. Sýningin Leiðréttingar/Corrections er þriðja einkasýning Sigurðar Árna í Hverfisgalleríi og á sýningunni eru tugir verka sem byggð eru á ljósmyndum og póstkortum sem listamaðurinn hefur safnað með kerfisbundnum hætti vítt og breitt um Evrópu síðustu þrjá áratugi.

Árið 1990 fann Sigurður Árni svarthvíta ljósmynd af svörtum hundi á flóamarkaði í Sète í Suður-Frakklandi. Myndin ber nafnið Fundinn hundur, en einkennilegt skuggaspil hundsins í skörpu sólarljósi myndarinnar vakti athygli hans. Myndin lá lengi á vinnuborði listamannsins áður en hann ákvað að líma hana á blað og vekja hundinn til lífs á ný með því að brjóta honum leið út úr rammanum og finna honum framhaldslíf í ókennilegum tvífara. Myndin af skuggaspili hundsins er upphaf að röð verka sem síðan hefur verið að vaxa og þróast undir nafninu Leiðréttingar. Fyrstu Leiðréttingarnar voru sýndar á yfirlitssýningu Sigurðar Árna í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum árið 1994, en síðan hafa tugir mynda bæst í safnið sem telur nú alls um 200 myndir.

Í bókinni Leiðréttingar, sem gefin er út á íslensku, ensku og frönsku. Æsu Sigurjónsdóttur segir að verk Sigurðar Árna endurspegla ástríðu listamannsins fyrir fundnum ljósmyndum og póstkortum sem hann grefur upp á flóamörkuðum og í fornbókabúðum á ferðum sínum erlendis, einkum í Frakklandi. „Líklega væri réttara að segja að myndirnar birtist honum á flandri hans eins og minningar sem skjóta upp kollinum þegar maður á síst von á þeim. Síðan liggja þær oft lengi í fórum hans áður en ein og ein hittir í mark. Hugsanlega ávarpa þær hann og minna á sig eins og hundur sem vappar inn í ljósmyndaramma á röngu augnabliki. Þá verður heimurinn að sviði fyrir framan myndavélina og allt sem er sviðsett umbreytist í tákn. Jafnvel hundur sem lifir sínu hversdagslega hundalífi verður að leikara þegar linsunni er beint að honum.“

Rithöfundurinn Hallgrímur Helgason segir að í Leiðréttingunum hafi Sigurður Árni Sigurðsson tekið að sér að leiðrétta mistök. „Í „leiðréttingum“ sínum notast hann einkum við fundnar ljósmyndir, gleymd og týnd póstkort sem hann hefur halað upp úr glatkistum í fornverslunum og á flóamörkuðum vítt og breitt um meginlönd Evrópu. Í kortabunkanum miðjum á hann sitt „stefnumót“ (líkt og Duchamp talaði um) við þau kort sem kalla hvað mest á „leiðréttingar“. Það er eitthvað áberandi „rangt“ við þau. E.t.v. er það myndin, hvernig hún er tekin, birtan eða myndefnið sjálft. E.t.v. er staðurinn sjálfur „rangur“. E.t.v. er kortið sent frá „röngum“ stað, af „röngum“ aðila, á „röngum“ tíma, á „rangt“ heimilisfang. E.t.v. fær það nú fyrst sinn „rétta“ viðtakanda.“

Sigurður Árni Sigurðsson er fæddur á Akureyri 1963. Hann hefur unnið að myndlist í Frakklandi og á Íslandi síðan hann lauk námi frá Institut des Hautes Études en Art Plastiques í París 1991. Sigurður Árni hefur haldið tugi einkasýninga og má finna verk eftir hann í öllum helstu listasöfnum á Íslandi auk listasafna í Evrópu. Nokkur verka hans eru staðsett í opinberum rýmum s.s. Sólalda við Sultartangavirkjun, glerverkið Ljós í skugga á dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri og útilistaverkið L’Eloge de la Nature í Loupian, Pyrénées-Méditerranée í Frakklandi. Myndlist Sigurðar Árna dregur athygli áhorfandans að tengslum milli veruleika og hugmynda og sambandi hluta og ásýndar. Verkin eru leikur með rými, bilið á milli hins tvívíða og þrívíða, forgrunns og bakgrunns, ljóss og skugga.

Frekari upplýsingar veita Sigríður L. Gunnarsdóttir í síma 864-9692 eða sigridur@hverfisgalleri.is eða Tommaso Gonzo í 764-5798 eða tommaso@hverfisgalleri.is

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com