Sigga 39

Sigga Björg sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði

Sigga Björg Sigurðardóttir opnar sýninguna Portrett, sígaretta, plötuspilair og Frísör í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði næstkomandi laugardag, 25.mars kl. 15.00 – 18.00.
Sýningin er opin daglega kl. 14.00 – 17.00 til 9. apríl.

Portrett, sígaretta, plötuspilari og Frísör

Verk Siggu Bjargar minna oft í fyrstu á myndir eða verur úr heimi barnabókmennta og ævintýra, en þegar betur er að gáð kemur fljótt í ljós að þar er um mun dimmari og flóknari sögur að ræða. Þau eru af óskilgreindri tegund en líta kunnuglega út. Þau eru á mörkum þess að vera menn og dýr en eiga það sameiginlegt að glíma við tilfinningar sem eru mannlegar. Allur skali mannlegra tilfinninga er viðfangsefni Siggu Bjargar og hefur hún, með verkum sínum og verum, skapað sinn eigin heim sem er fullur af skringilegheitum og svörtum húmor. Verurnar sýna okkur inn í hið margslungna, flókna og oft bráðfyndna eðli þess að vera mannvera og hversu óljós mörkin geta verið á milli þess að vera manneskja og dýr.

Sigga útskrifaðist úr myndlistadeild Listaháskóla Íslands árið 2001 og síðar með mastersgráðu í myndlist frá The Glasgow School of Art árið 2004. Síðan þá hefur hún sýnt verkin sín í söfnum og galleríum víðsvegar um heiminn. Nýlega var hún með einkasýninguna Rósa í Hafnarborg og yfirstandandi er sýning á verkum hennar í Galerie Römerapotheke í Zurich í Sviss. Verk hennar eru einnig sýnd á Drawing Now listamessunni sem stendur núna yfir í París.
Fjallabyggð, Fiskkompaníið, Egilssíld og Uppbyggingarsjóður / Eyþing styðja við menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com