Image003

Síðustu forvöð & listamannaspjall við Einar Fal um Landsýn – Í fótspor Jóhannesar Larsen í Hafnarborg 20.ágúst

Lokadagur sýningarinnar Landsýn – Í fótspor Jóhannesar Larsen, sýning með ljósmyndum Einars Fals Ingólfssonar rennur upp sunnudaginn 20. ágúst.

Klukkan 14 þann dag mun Einar Falur vera með listamannsspjall þar sem hann segir frá sýningunni og því viðamikla verkefni sem að baki hennar liggur en í þrjú ár, 2014 – 2016, ferðaðist hann um Ísland og tók ljósmyndir á þeim stöðum sem danski myndlistarmaðurinn Johannes Larsen hafði um 90 árum áður dregið upp rúmlega 300 teikningar á sögustöðum Íslendingasagna. Meginstef sýningarinnar er tíminn sjálfur, tími landsins og mannanna. Ljósmyndir Einars fjalla fyrst og fremst um samtímann þó að samtímis eigi þær í samtali við tíma Íslendingasagna og tíma Larsens á Íslandi. Ljósmyndaverk Einars geta vissulega staðið stök og sjálfstæð en undirstaða sýningarinnar er þó samtal Einars við teikningar Larsen.

Í kjölfar listamannsspjallsins verður blásið til útgáfufögnuðar þar sem bók um verkefnið verður til sýnis og til sölu, nýkomin til landsins. Hönnun bókarinnar var í höndum Atla Hilmarssonar og Crymogea gefur hana út.

Einar Falur Ingólfsson er bókmenntafræðingur að mennt og með MFA-gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York. Einka- og samsýningar með verkum hans hafa verið settar upp í söfnum og sýningarsölum á Íslandi og að víða erlendis, meðal annars í Scandinavia House og Katonah Museum í New York, Johannes Larsen Museet í Danmörku, Ljósmyndasafni Moskvuborgar og Frankfurt Kunstverein. Hann er höfundur nokkurra bóka.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com