
Síðustu forvöð, Grétar Reynisson – 501 nagli í Hallgrímskirkju
Síðasta sýningarhelgi sýningar Gretars Reynissonar myndlistarmanns, 501 nagli í Hallgrímskirkju verður helgina 19. -21. ágúst 2017. Kirkjan er opin alla helgina frá 9:00 – 21:00.
Sýningin vísar til þess að hinn 31. október 1517 negldi Marteinn Lúther 95 mótmælagreinar gegn aflátssölu kaþólsku kirkjunnar á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi. Og markaði sá atburður upphaf siðbótarinnar.
Eins og fram kemur í umfjöllun Steins Arnar Atlasonar í sýningarskrá vísar verkið 501 nagli í gjörning Lúthers með beinum hætti, bæði í naglana sem voru notaðir til að festa greinarnar á kirkjudyrnar og í að 500 ár eru liðin frá því að atburðurinn átti sér stað. Gretar hefur stimplað 501 merkimiða, hvern með einu ártali frá 1517 til 2017, og neglt þá á veggina í forkirkju Hallgrímskirkju. Verkið, sem er unnið sérstaklega fyrir Hallgrímskirkju, er annars vegar mótað af tímatalinu mældu í árum og hins vegar af upplifun og sjó nrænni framsetningu tímans. 501 nagli kallast á við önnur verk Gretars frá síðustu tveim áratugum þar sem hann glímir við tímann.
Gretar Reynisson (f. 1957) lauk myndlistarnámi frá Nýlistadeild Myndlistar og handíðaskóla Íslands 1978 og var við framhaldsnám í Amsterdam 1978–79. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Umsjónarmaður sýningarinnar er Rósa Gísladóttir. Sýningin stendur til 21. ágúst 2017.