Listasafn170529 05

Síðustu forvöð A17, abstraktmyndlist við upphaf 21. aldar í Listasafni Reykjanesbæjar

Á sunnudag lýkur sumarsýningu Listasafns Reykjanesbæjar, A17 sem fjallar um íslenska abstraktmyndlist við upphaf 21. aldar. Á sýningunni eru verk eftir Áslaugu Írisi Katrínu Friðjónsdóttur, Höddu Fjólu Reykdal, Halldór Ragnarsson, Loga Bjarnason, Magnús Helgason, Mörtu Maríu Jónsdóttur og Söru Oskarsson. Sýningarstjórar eru Aðalsteinn Ingólfsson og Bjarni Sigurbjörnsson.

Abstraktmyndlist hefur átt undir högg að sækja í íslensku myndlistarlífi á undanförnum áratugum og af samtölum við þátttakendur í sýningunni má ráða, að til þess að skapa abstraktmyndlist hafi þeir nánast þurft að kúpla sig út úr íslensku myndlistarlífi, finna sér nýja listaskóla og aðra „senu“.

Um sýninguna segir Bjarni Sigurbjörnsson í viðtali við Fréttablaðið að það sem einkenni listamennina á sýningunni A17 sé ekki síst leitin að fegurð og jafnvægi. „Jafnvægi og fegurð í einhverjum skilningi þessara orða er sterkt einkenni. Það er svona að einhverju leyti rauði þráðurinn sem gefur að líta á sýningunni.“

Sýningin er staðsett í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum. Þar er opið alla daga frá 12 – 17.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com