ListasafniðAkureyri

Síðasta sýningarvika Talaðu við mig! / Runā ar mani! / Talk to Me! í Listasafninu á Akureyri

Framundan er síðasta sýningarvika Talaðu við mig! / Runā ar mani! / Talk to Me! í Listasafninu á Akureyri, en þar má sjá verk nítján lettneskra myndlistarmanna. Af því tilefni verður dagskrá í Listasafninu laugardaginn 21. september.

  • Kl. 13 í sal 11: Trommutónleikar – Brothers Grīnbergs. Bræðurnir Kārlis (16), Ansis (13) og Miķelis Grīnbergs (8) frá Lettlandi flytja fjölbreytta tónlist frá öllum heimshornum.
  • Kl. 14 í sölum 01-05: Leiðsögn um Talaðu við mig! Astrida Rogule, sýningarstjóri, segir gestum frá lettneskri samtímalist. Sýningunni lýkur sunnudaginn 22. september.
  • Kl. 14 í fræðslurými: Ullarspunasmiðja fyrir eldri borgara. Umsjón: Guðrún H. Bjarnadóttir.
  • Kl. 15 í sal 06: Listamannaspjall með Eiríki Arnari Magnússyni um sýningu hans Turnar.

Yfirskrift sýningarinnar gefur til kynna þverstæðukenndar aðstæður: Á sama tíma og samskipti verða tíðari gerist það æ sjaldnar að fólk talar saman augliti til auglitis. Þessi staða getur þó orðið tilefni til þess að einstaklingar og menningarheimar mætast í fyrsta sinn. Lettnesk samtímalist er í sókn og á sýningunni er því haldið fram að frelsi grundvallist á tengslum.

Í verkunum sem valin hafa verið til sýnis kryfja lettneskir listamenn sjálfsmynd sína og leit að lífvænlegri framtíð. Jafnframt er gefið í skyn að samtímalistasafnið geti verið mikilvægur vettvangur samskipta þar sem tekist er á um samveru og pólitískt minni til þess að leysa ráðgátur framtíðar. Sýningin er hluti af fullveldisdagskrá Lettlands og verkin koma öll úr safneign Lettneska þjóðlistasafnsins í Ríga. 

Listamennirnir eru: Andris Breže, Arturs Bērziņš, Dace Džeriņa, Ģirts Muižnieks, Ieva Epnere, Inga Meldere, Katrīna Neiburga, Kaspars Podnieks, Krišs Salmanis, Kristaps Epners, Kristaps Ģelzis, Leonards Laganovskis, Maija Kurševa, Mārtiņš Ratniks, Raitis Šmits, Rasa Šmite, Vija Celmiņš, Vilnis Zābers, og Zenta Dzividzinska.

Sýningarstjórar: Astrida Rogule og Æsa Sigurjónsdóttir. 

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com