DSC07779

Síðasta sýningarhelgi á málverkassýningu Sigríðar Rutar Hreinsdóttur Smámyndir í Grafíksalnum

Síðasta sýningarhelgi á málverkassýningu Sigríðar Rutar Hreinsdóttur Smámyndir í Grafíksalnum við Tryggvagötu 17, bryggjumegin.

—————

Nú eru síðustu forvöð að sjá sýningu Sigríðar Rutar Hreinsdóttur í Grafíksalnum við Tryggvagötu 17 bryggjumegin, en henni lýkur 24. september.

Smámyndir er sjötta einkasýning Sigríðar Rutar sem einnig hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum.

Myndirnar sem eru allar lítil olíumálverk 20 x 20 cm. að stærð voru unnar á árunum 2011 til 2017, og hafa ekki verið til sýnis áður.

Flest mótífin eru náttúrutengd, hamingjusamir fíflar og lauf og smáblóm af Íslenskri fold.

Sigríður Rut Hreinsdóttir (f. 1957) býr og starfar að list sinni í Reykjavík. Hún lauk námi við málaradeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands árið 1990 og sótti kvöld og dagskóla í hlutateikningu, módelteikningu, vatnslit og fleiri fögum samhliða í Myndlistarskóla Reykjavíkur frá 1985 – 1990. Áður hafði hún tekið myndlistarbraut í Linderud Videregående skole í Oslo, Noregi, 1983.

 

Sýningin stendur til 24. september og er

opið frá klukkan 14:00 – 18:00

Verið velkomin.

—————

 

Við fætur okkar teygja sig fíflar til himins; þrjóskulegir og dálítið góðir með sig. Fagurgulur litur blómknappsins er glettnislegur í dökkgrænu grasinu; fífillinn nýtur þess að skera sig úr. 

Sumum er talsverð ömun af þessari grósku; garðyrkjuunnandinn stingur fífilinn upp með snöggu lagi og fylgist vandlega með því hvort óvelkomin afkvæmi séu að hreiðra um sig. 

Aðrir njóta fegurðar þessara kraftmiklu blóma; börn gera það að leik sínum að slíta fiflana upp við jörð og skjóta blómknappinum af með þumalfingrinum í áttina til leikfélaga sem víkur sér fimlega undan sendingunni. 

Íhugul móðir sækir sér fíflablöð til að lífga upp á salatblönduna; það felst einhver innri fegurð í því að gera sér mat úr því sem hægt er að seilast í hvenær sem er og hvar sem er. 

Frakkar kalla þessa nytjajurt Piss-en-lit, en það má þýða sem Undirmigu, sem þrátt fyrir kersknislegt heiti nýtur virðingar sem lækningajurt. Í sveitum til forna var rammur safi stöngulsins borinn á vörtur og börn skemmtu sér við að útvíkka bragðskynið með því að reka tunguna í fíflamjólkina og fleygja svo fíflinum frá sér með grettusvip og hlátrasköllum.

Víngerðarmaðurinn safnar í mal sinn þroskuðum blómum fífilsins og dreifir þeim ofan í vökvann sem hann á síðar eftir að njóta um jólaleytið.

Athugull náttúruunnandi horfir hugfanginn ofan í blómið; stærðfræðileg fegurð veraldarinnar brosir á móti. Kannski örlítið ljóð spretti upp af þessu andartaki; ljóð sem byrjar kannski svona: Fífilbrekka, gróin grund!

Listamaðurinn Sigríður Rut er að sama skapi meðvituð um nærveru fífilsins. Í málverkum sínum opnar hún fyrir margbrotnar víddir þessarar lífseigu plöntu sem minnir okkur dag hvern á mikilvægi þess að brosa mót heiminum, hvernig sem viðrar. Blöð fífilsins eru óvenjulega áleitin í formi. Þau minna í sviphendingu á vængjaðan fisk sem sveiflar sporði sínum; ákveðinn að koma sér áfram, eða þau stíga dans undir taktfastri og seiðandi tónlist. Innri lífæðar viðkvæmra blómstilka endurspegla samhljóm alls sem er.

Þannig ljúkast upp augu okkar fyrir hinu stóra í því smáa og hinu smáa í því stóra: As above, so below.

 

Ingimar Ólafsson Waage
myndlistarmaður og heimspekingur

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com