Sara Riel

SARA RIEL – FLÓRAN 2019, vegglistaverk og sýning

SARA RIEL

FLÓRAN, 2019

LISTAMENN GALLERí & SPENNISTÖÐIN VIÐ AUSTURBÆJARSKÓLA

Við bjóðum þér á opnun nýs vegglistaverks eftir Söru Riel í Listamönnum gallerí og við Spennistöðina við Austurbæjarskóla,

laugardaginn 12.október kl. 15.00 – 17.00

 Flóran, 2019

Vegglistaverk fyrir Spennistöðina við Austurbæjarskóla, Reykjavík

Vegglistaverkið Flóran er málað á vegg Spennistöðvarinnar, Barónstíg 32. Verkið er samansett úr plöntum sem nemendur í Austurbæjarskóla (2018-2019) völdu sem staðgengil sinn. Nemendur fengu verkefni þar sem spurt var: “Ef þú værir planta, hvaða planta værir þú og af hverju?!” Áttu nemendur bæði að teikna og setja inn skýringatexta.

Auk vegglistaverksins sýnir Sara Riel  í Listamönnum gallerí þrjú plöntukort sem unnin eru upp úr teikningum barnanna. Plöntukortin þjóna sem plöntulykill að veggverkinu. Auk þess verða til sýnis frumskissur/fyrirmyndir að veggverkinu og kveikjurnar. Handgerðar bækur með myndum og textum barnanna.

Sýningin hefst í Listamenn gallerí á Skúlagötu 42 og þaðan er haldið upp í Austurbæjarskóla til að bera 250 fm listaverkið augum, sem er að mestu málað en hluti af verkinu er auk þess þakinn mosa. Sýningin í Listamönnum gallerí stendur yfir í tvær vikur.

Verkið er innsetning í borgarrýmið, þar sem staðsetning og þau kennileiti í umhverfi við það er vandlega ígrundað í samhengi við verkið sjálft. Vegglistaverkið er viðbragð við hinu ytra, umhverfinu eða samfélaginu þar sem veggurinn er staðsettur. Þetta er vísindaleg nálgun þar sem fimm þættir eru uppfylltir: Hugmynd, rannsókn, framleiðsla, framkvæmd og framsetning.

Í nýlegum verkum Söru Riel hefur hún blandað saman þrívíðum efnivið við tvívíða málverkið. Speglar og lifandi mosi eru meðal þeirra efna sem hún notar til að ýkja þátt veðurs, birtuskilyrða og tíma í verkunum. Verkin eru í stöðugri breytingu vegna þessara þátta.

Íbúar kusu vegglistaverk til framkvæmda en það er hluti af íbúalýðræðisverkefninu „Hverfið mitt“ á vegum  Reykjavíkurborgar.

Sérstakar þakkir fá starfsfólk Austurbæjarskóla, Tæki.is og Slippfélagið fyrir stuðninginn.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com