Bc4a36a4 0f55 4ddb B2ae Ed65862d123b

SARA BJÖRNSDÓTTIR: FLÂNEUR síðasta sýningarhelgi

SARA BJÖRNSDÓTTIR: FLÂNEUR
Listamannaspjall á síðasta sýningardegi
Næstkomandi sunnudag, 21. ágúst kl. 15, leiðir Sara Björnsdóttir, gesti um sýninguna Flâneur en það er jafnframt síðasti sýningardagur.

Sýning Söru Björnsdóttur, Flâneur, er einskonar sjálfsævisögulegt ferðalag og fjallar um leyndardómsfullt ástand listakonunnar þar sem hún dvelur í stórborginni Lundúnum og sækir sér langþráðan vinnufrið. Hún tekur upp ljóðrænt háttalag flandrarans (flâneur) sem ferðast án stefnu eða tilgangs um borgina í leit að öllu og engu. Textaverk og klippimyndir mynda sögur, augnablik, hugarvíl og uppreisn. Þetta tvinnar Sara saman við talaða frásögn sem lýsir vandræðum, ævintýrum og sérviskulegu ástandi hennar á þessu tímabili.

“Það er eitthvað alveg sérstakt og einkennandi við verk Söru sem maður finnur ekki svo víða í íslenskri myndlist. Hún hefur mjög beitta rödd sem oft snýr að myndlistinni sjálfri. Sérstaklega minnugt er verkið This is Modern Art frá 2005, en þar sjáum við listamanninn klæddann munstruðum kjól sem minnir á verk Mondrians. Hún lítur svo ofan í kvenlega hliðartösku og skellihlær. En það er einmitt húmorinn í verkum Söru – einfaldur, beittur og heillandi.

Sara tekst gjarnan á við hugmyndir sem skarast við einkalíf og hversdagsleika og opinberar um leið bæði sjálfa sig og umhverfi sitt. Einkenni sem maður tengir gjarnan við bresku myndlistarsenuna – en Sara var búsett í London á seinni hluta tíunda áratugarins. Ný kynslóð listamanna hafði komið fram og gekkst við myndlistinni með mjög opnu viðhorfi t.a.m. með notkun á ólíkum miðlum, afhjúpun hins persónulega eða ýmsum umdeildum viðfangsefnum.” segir Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, listrænn stjórnandi Gerðarsafns.

Einlægt en opinskátt innsæi Söru getur snert fínlegar taugar hjartans en verk hennar geta jafnfram snert okkar viðkvæmustu strengi vegna þess sannleika sem hún afhjúpar. Verk hennar standa á mótum hins pólitíska og persónulega þar sem hún gengur umbúðalaust að viðfangsefni sínu hverju sinni.

Sara Björnsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1962. Hún stundaði nám í London við Chelsea College of Art & Design á árunum 1996-1997 og Myndlista- og handíðaskóla Íslands frá 1991-1995. Sara hefur unnið ötullega að listinni alla tíð og á að baki fjölda samsýninga og einkasýninga.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com