Sandra Rebekka

Listasafninð á Akureyri – Sandra Rebekka Dudziak

Þriðjudaginn 1. mars kl. 17-17.40  heldur Sandra Rebekka Dudziak, myndlistarmaður og kennari, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, undir yfirskriftinni Má ekki bara sleppa þessum listgreinum? – Hlutverk listgreina í skólastarfi. Í fyrirlestrinum fjallar Sandra Rebekka um hlutverk listgreina í skólastarfi og mikilvægi þeirra í þroska og námi barnanna sem koma til með að móta framtíð samfélagsins.

Samkvæmt aðalnámskrá  er sköpun einn af grunnþáttum menntunar enda veitir listin óviðjafnanleg tækifæri til náms. Hún ætti því að vera viðurkennd sem framlag til bættrar menntunar. Opinber stefnumótun virðist þó ekki mótast nægilega af þeirri sýn og starfsumhverfi listgreinakennara veitir þeim ekki nægilegt svigrúm til starfsins og er ekki í takti við þau markmið sem aðalnámskrá ætlar nemendum að hafa náð við útskrift úr grunnskóla.

Sandra Rebekka Dudziak útskrifaðist sem kennari frá Háskóla Íslands 2011 og frá Myndlistaskólanum á Akureyri 2014. Hún starfar sem sjónlistakennari við Giljaskóla en meðfram þeirri vinnu stundar hún framhaldsnám í sérkennslufræði við Háskólann á Akureyri. Sandra Rebekka vinnur að eigin list þegar færi gefst og hélt nýlega sína fyrstu einkasýningu.

Þetta er sautjándi Þriðjudagsfyrirlestur vetrarins en fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins og Myndlistafélagsins.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com