Samráðsfundur stjórnar SÍM og Myndstefs þriðjudaginn 26. júní 2012

Fundargerð

 1. Samráðsfundur stjórnar SÍM og Myndstefs þriðjudaginn 26. júní 2012 kl. 13:00
  haldinn í SÍM húsinu Hafnarstræti 16.

Fundur settur kl. 13:05.

Mættir voru: Harpa Fönn Sigurjónsdóttir lögfræðingur Myndstefs, Knútur Bruun lögfræðingur SÍM, Ólöf Pálsdóttir starfsmaður Myndstefs, Hrafnhildur Sigurðardóttir formaður SÍM, Ásmundur Ásmundsson varaformaður, Kristín Gunnlaugsdóttir, Katrín Elvarsdóttir og Hjördís Bergsdóttir – Dósla. Unnar Örn Jónasson boðað forföll.    

 1. Gjaldskrá vegna útlána listaverka til stofnana og sendiráða. Lögð voru fram drög að gjaldskrá sem Harpa Fönn lögfræðingur Myndstefs hefur samið og lögð hefur verið fyrir stjórn Myndstefs. Knútur Bruun sagði frá forsögunni, þar sem Myndstef hefur reynt að fá slíka gjaldskrá samþykkta frá því lög um höfundarrétt voru samþykkt árið 1991, en ekki haft erindi sem erfiði. Rætt var um gjaldskrána og greinagerð henni fylgjandi og hvaða málefna hún tæki til. Hrafnhildur formaður SÍM sagðist hafa ýmsar spurningar og athugasemdir og ákvað fundurinn að hún myndi funda með Hörpu Fönn sérstaklega vegna málsins frekar en að ræða það á þessum fundi. Einnig var ákveðið að í framhaldinu myndu Harpa Fönn og Hrafnhildur semja bréf til Mennta- og menninarmálaráðherra (MMR) vegna gjaldskrárinnar og í framhaldinu óska eftir fundi með MMR til að ýta á eftir að hún verði samþykkt af ráðuneytinu.
 2. Staða samninga við listasöfn um greiðslu á höfundarrétti vegna birtingu á netinu. Samningur um birtingu höfundarréttar á netinu var gerður við Listasafn Íslands fyrir um sex árum og endurnýjast hann ár frá ári. Viðlíka samningur við Listasafn Reykjavíkur náðist ekki í gegn á þeim tíma.
  Í júlímánuði árið 2010 áttu Knútur Bruun lögfræðingur Myndstefs og Hrafnhildur formaður SÍM fund með formanni Menningar- og ferðamálaráðs(MOFr) Einari Erni Bendiktssyni. Þá óskaði hann eftir að drög að slíkum samningi yrði sendur til MOFr svo að hægt væri að ganga frá undirritun. Það var gert og heyrðist ekki frekar frá þeim. Í nóvember 2012 fóru fulltrúar Myndstefs og SÍM fram á fund með MOFr til að ræða þessi mál og hvar þau sætu föst í kerfinu. Var sá fundur haldinn í byrjun janúar 2012. Á þann fund mættu fulltrúar Myndstefs, SÍM, MOFr ásamt forstöðumanni Listasafns Reykjavíkur Hafþóri Yngvasyni. Rætt var um drögin og var niðurstaða fundarins sú að lögfræðingi Mynstefs og forstöðumanni LR var falið að funda í framhaldinu og ganga frá samningi. Stjórn SÍM er nú farin að ókyrrast og hræðist að málinu verði enn og aftur stungið undir stjól hjá borginni þar sem ekki bólar á undirskrifuðum samningi. Kom fram nú að Harpa Fönn hefur nýverið reynt að hafa samband við Svanhildi Konráðsdóttur hjá MOFr vegna málsins, en ekki fengið fund enn. Uppástunga kom fram á fundinum um að senda borgarstjóra og MMR bréf um málið, ef ekki tekst að fá fund bráðlega.
  Af öðrum samningum um birtingu höfundarréttarvarins efnis á netinu er það að frétta að samningur hefur þegar verið gerður við Listasafn Árnesinga og rætt hefur við fleiri söfn um samninga. Þeir hafa í sumum tilvikum strandað á safnaráði, sem ekki vill semja um þessi mál. Samband íslenskra myndlistarmanna hvetur Myndstef til þess að halda þessum málum á lofti bæði við Listasafn Reykjavíkur sem og önnur söfn.
 3. Stafræn eintakagerð myndverka og staða heildarsamninga við grunnskóla, menntaskóla og háskóla. (FJÖLÍS). Fjölís eru samtök sem stofnuð voru fyrir um 30 árum síðan. Þessi samtök borga kollektívar tekjur til Myndstefs, eða um 23,5% af heildarinnheimtu samtakanna. Innheimtan er aðallega vegna ljósritunará bókum í skólum. Þessi sjóður gefur af sér nokkrar tekjur sem fara m.a. í úthlutunarsjóð Myndstefs. Knútur Bruun og Ragnar Th. Stefánsson sitja í stjórn Fjölis fyrir hönd Myndstefs. Tímabundinn samningur vegna Háskólanna var gerður fyrir um þremur árum um hið stafræna umhverfi og hefur endanleg útgáfa nú verið samþykkt. Fjölís vinnur nú að því að fá viðlíka samninga við menntaskólana og grunnskólana.
 4. Annað hugsanlegt samstarf milli félaganna til að auka tekjur listamanna. Fulltrúar SÍM og Myndstefs voru sammála um að áríðandi væri að samtökin vinni áfram þétt saman að hagsmunamálum myndlistarmanna. Fundurinn var einnig sammála um að gott væri að halda slíkan samráðsfund a.m.k. einu sinni á ári til að geta átt enn meira samstarf og unnið að sameiginlegum málum.
 5. Önnur mál.
 6. Erindi Ástu vegna kosningarfyrirkomulags SÍM.
  Rætt var um erindi Ástu Ólafsdóttur frá 22.júní vegna fyrirkomulag kosninga hjá SÍM. Lögfræðingar SÍM og Myndstefs voru sammála um að skerpa mætti á 7. grein laga SÍM. Einnig voru þeir sammála um að það væri ekki óskynsamlegt að héðan í frá yrði kosningarsamkomulag SÍM á þann veg að eingöngu yrði hakað við einn til tvo meðstjórnendur, en ekki þrjá líkt og tíðkast hefur og að jafnframt mætti bæta orðalag í fylgibréfi kosningargagna. Þar gæti því í framtíðinni staðið að ,, haka skuli við einn til tvo frambjóðendur” í stað þess að ,,haka við 1-3 frambjóðendur. Þannig mætti koma í veg fyrir hugsanlegan misskilning á því að félagsmenn teldu sig vera að forgangsraða frambjóðendum frekar en, líkt og ætíð hefur verið, að ,,krossa við” þá frambjóðendur sem þeim hugnast.   Kom fram í máli Hörpu Fannar að sú framkvæmd sem hefur verið viðhöfð higað til væri þó ekki ólögleg þ.e. að krossað sé við þrjá aðila (tvo aðalmenn og einn varamann), enda myndast hefð í gegnum tíðina á því fyrirkomulagi. Ákveðið var að Harpa Fönn og Hrafnhildur Sigurðardóttir myndu vinna að lagfæringu á 7. grein laga SÍM, sem yrði síðan borin undir aðalfund SÍM að ári til samþykkis.

Fundi slitið kl. 15.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com