Lógó Breytt

Samráðsfundur stjórnar SÍM með Listasafni þriðjudaginn 24. apríl 2012

Fundargerð

Samráðsfundur stjórnar SÍM með Listasafni þriðjudaginn 24. apríl 2012 kl. 13:00
haldinn í Listasafni Íslands Laufásvegi.

 

Mættir voru:

Fyrir SÍM: Hrafnhildur Sigurðardóttir formaður – sem ritaði fundinn, Ásmundur Ásmundsson varaformaður, Katrín Elvarsdóttir ritari, Unnar Örn Jónasson gjaldkeri og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri.

Fyrir Listsafn Íslands: Halldór Björn Runólfsson safnstjóri, Sigríður Melrós Ólafsdóttir deildarstjóri sýningardeildar, Dagný Heiðdal deildarstjóri listaverkadeildar og Anna María Urbancic deildarstjóri fjármála- og rekstrardeildar.

Fundur settur kl. 13:10

  1. Útlán á listaverkum til stofnana og sendiráða: Samkvæmt 25. grein höfundarlaga er samtökum myndhöfunda „heimilt að setja gjaldskrár um sýningar verka á listsýningum eða með hliðstæðum hætti, sbr. 1. mgr. Þá skal samtökunum heimilt að setja gjaldskrár vegna annarrar birtingar myndverka. Slíkar gjaldskrár skulu háðar staðfestingu menntamálaráðuneytisins.” (Höfundalög). Umræða um þennan lið hófst í raun á málþingi SÍM 24. mars s.l. Þar ræddi Halldór Björn Runólfsson um að nýta bæri þessa heimild. Stjórn SÍM hefur kynnt sér málið og hafið viðræður við Myndstef um að setja slíka gjaldskrá. Rætt var um þessi útlán Listasafns Íslands (LÍ) og hversu algegn þau væru. Fram kom að um 400 verk séu til útláns á hverjum tíma og í a.m.k. 3 ár. Hér væri því hugsanlega um nokkrar fjárhæðir að ræða sem kæmi í hlut Myndstefs að innheimta. Listasafnið fær ekki greidda neina leigu vegna útlánanna, einungis umsýslukostnað. Þessi útlán eru skráð, en ef til þess kæmi þyrfti nánari skráningu hjá LÍ til að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir og senda mætti Mennta- og menningarmálaráðuneytinu (MMR). Rætt var um að höfundarréttargreiðslur vegna slíkra útlána yrðu að koma frá MMR eða þeim stofnunum sem fá verkin lánuð, ekki frá LÍ.

 

  1. Þáttöku og sýningargjald. Því næst var rætt um þáttöku og sýningargjald til handa listamönnum, líkt og Frida Yngström frá KRO í Svíþjóð sagði frá í umfjöllun sinni um MU samninginn sænska. Halldór Björn lýsti sig jákvæðan fyrir öllum breytingum sem gerðu það að verkum að listamenn fengju greitt fyrir vinnuna sína. Fundurinn taldi það skammarlegt hve illa væri búið að listamönnum og þeir í raun þeir einu sem ekki fengju greitt fyrir sýningarhald í safninu. Fulltrúar LÍ sögðu að þau hefðu vonast til að í nýjum Myndlistarlögum væri svigrúm fyrir slíkt. Sem stendur er listasafnið mjög aðþrengt fjárhagslega. Það hefur þurft að taka á sig mikinn niðurskurð og þau eru fáliðuð með mörg verkefni á sínum snærum. Hér er því ljóst að allar slíkar greiðslur yrðu einnig að koma sem viðbótarfjármagn frá MMR.

 

  1. Myndbirtingar á netinu. Rætt var um myndbirtingar á netinu og undirbúning LÍ og Sarps á slíkri myndbirtingu. Safnráð og listamenn eru hér með ólík sjónarmið og snýst það um greiðslur á höfundarréttargjöldum vegna birtingarinnar. SÍM benti þar á að hér væri einn liður af mörgum smáum, þar sem listamenn vilja fá greitt því margt smátt gerir eitt stórt. Kom fram í máli manna að líkt og með aðrar greiðslur til listamanna þá eru þessar höfundargreiðslur þungur baggi á hverju safni í landinu. Heildargreiðslur fyrri myndbirtingar fyrir öll söfn í landinu yrði þó ekki nema um 5 milljónir og því litlir peningar fyrir MMR. Fyrirmyndina að slíkum greiðslum MMR má sækja í greiðslur þeirra á stefgjöldum og gjöldum vegna útlána bóka af bókasöfnum.

 

  1. Sýningarstaðir. Halldór Björn spurði stjórn SÍM hvort einhvertímann hafi komið fram umræða um að flytja inn það þýska kerfi sem Norðurlandaþjóðirnar eru að gera og auka þannig á rými sýningarstaða. Það er á skiptingu listasafna í Kunstmuseum (listasafn rekið af ríki), Kunsthalle (listasafn og sýningarsalir reknir af borg) og Kunstverein (sýningarstaður rekinn af listamannasamtökum). Benti stjórn SÍM þar á að Nýlistasafnið sé í raun svar listamanna við slíku og einnig voru Kjarvalsstaðir hugsaðir sem slíkur sýningarstaður og gegndi því hlutverki, þar til lokað var á að listamenn gætu sótt þar um að halda sýningar. Rifjað var upp að listamenn komu að byggingu Kjarvalsstaða þar sem sú fjárhæð sem fekkst fyrir sölu á listamannaskálanum rann inn í byggingarsjóð Kjarvalsstaða og það er einmitt ástæðan fyrir að SÍM átti fulltrúa í Menningarmálanefnd sem fundaði einatt á Kjarvalsstöðum. Sú nefnd er nú Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurboragar. Bent var á að sameiginlegur félagskapur listamanna innanlands sem og á Norðulöndum og í Evrópu hófst einatt á sýningarvettvangi, en þróaðist síðan út í hagsmunabaráttu. Hagsmunabaráttan er enn talin svo stutt á veg komin að sem stendur geti stjórn SÍM ekki dreyft kröftum sínum í önnur málefni. Kunstverein á vegum SÍM er því framtíðarmúsík, en þangað til verður sýningarsalur SÍM í Hafnarstræti að duga.

 

  1. Rannsóknaraðstaða við safnið. Listasafn Íslands var stofnað 1884. Rúmum 100 árum síðar fekk það sitt eigið húsnæði eða árið 1988. Enn er engin rannsóknaraðstaa við safnið – þetta höfuðsafn íslenskar myndlistar. Rætt var um að SÍM ásamt LÍ þyrftu að taka höndum saman í þessu máli sem og öðrum ofangreindum málum og kalla á betri aðbúnað og vinnu til handa listamönnum sem og fræðimönnum sem vilja veg myndlistarinnar sem mestan.

 

  1. Serrasjóður. Stjórn SÍM grennslaðist fyrir um hvort búið væri að skipa nýjan fulltrúa Myndhöggvarafélags Reykjavíkur í stað Ásmundar Ásmundssonar sem sagði af sér eftir síðustu úthlutun. Eins var rætt um það hvenær næsta úthlutun yrði. Rifjað var upp að ákveðið var í stjórn Serra að héðan í frá yrðu úthlutanir annað hvert ár til að ganga ekki á sjóði sjóðsins, en að jafnframt var ákveðið í fyrra að næsta úthlutun yrði 2012 eða í ár. Það er því kannski ekki seinna vænna en að hefja það ákvarðanaferli.

 

  1. Önnur mál.

Rætt var laust og fast um önnur mál m.a. kaup ríkisjóðs á húsnæði næst við hliðin á LÍ á Laufásvegi. Þar gætu orðið nýir sýningarsalir í framtíðinni. Eins var rætt um Listasafn Ásgríms Jónssonar og kom fram að safnið ætti um 2000 verk eftir listamanninn. Að lokum var rætt um að gott væri að hafa slíkan samráðsfund árlega milli stjórnar SÍM og safnsins. Voru allir sammála um að koma ætti slíkri hefð á.

 

Fundi slitið. kl.15.15.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com