Safnanótt á Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhús, Kjarvalsstaðir, Ásmundarsafn

 

Dagskrá safnanætur 2015, föstudag 6. febrúar kl. 19.-24.

Listasafn Reykjavíkur býður í partý á Safnanótt

Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús, Kjarvalsstaðir og Ásmundarsafn – stendur fyrir margs konar viðburðum á Safnanótt þar sem myndlist og tónlist er blandað saman á líflegan og skemmtilegan hátt. Á Safnanótt standa alls sex sýningar listasafnsins opnar gestum að kostnaðarlausu. Auk fjölbreyttra sýninga verður boðið upp dagskrá með listsmiðju og leiðsögnum á ensku og pólsku.

Stærsti viðburður Listasafns Reykjavíkur á Safnanótt er án efa opnun sýningarinnar Nýmálað 1 í Hafnarhúsi, sem er yfirlitssýning um stöðu málverksins á Íslandi. Opnunin stendur frá kl. 20 en efnt verður til heljarinnar veislu þar sem plötusnúðurinn Krystal Carma (Arnljótur Sigurðsson úr Ojba Rasta) mun halda uppi fjörinu frá klukkan 20:30 til miðnættis.

Á Kjarvalsstöðum heldur Tríó Reykjavíkur kvöldtónleika og boðið verður upp á námskeið í listmálun undir leiðsögn myndlistarmannsins Þorvaldar Jónssonar. Þá verður boðið upp á leiðsögn um sýningar Einars Hákonarsonar og Kjarvals á pólsku.
Í Ásmundarsafni ætlar Duo Harpverk að flytja ný tónverk fyrir hörpu og slagverk auk þess sem listamaðurinn Kathy Clark segir frá verki sínu á samsýningunni A posteriori: Hús, Höggmynd.

Aðgangur á safnið og alla viðburði þess á Safnanótt er ókeypis og allir velkomnir.
Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík: www.vetrarhatid.is

DAGSKRÁ:

HAFNARHÚS
Kl. 20 – 24
OPNUNARPARTÍ SÝNINGARINNAR NÝMÁLAÐ 1
Á síðustu árum hefur verið mikil gróska í málaralist víða um heim. Til að gefa yfirlit um stöðu málverksins á Íslandi efnir safnið til sýningar í tveimur hlutum, fyrri hlutinn opnar í Hafnarhúsi á Safnanótt og hinn síðari á Kjarvalsstöðum í lok mars.  Alls verða sýnd verk eftir  85 starfandi listmálara og hefur svo víðtæk úttekt á íslensku samtímamálverki ekki verið gerð áður. Sýningarstjórar eru Hafþór Yngvason og Kristján Steingrímur Jónsson. Efnt er til opnunarpartís í Hafnarhúsi frá kl. 20. Plötusnúðurinn Krystal Carma (Arnljótur Sigurðsson úr Ojba Rasta) mun halda uppi fjörinu frá klukkan 20:30 til miðnættis.

KJARVALSTAÐIR:
Kl. 19. – 21.
VARÚÐ – NÝMÁLAÐ!
Námskeið í listmálun fyrir 14 ára og eldri í Hugmyndasmiðjunni á Kjarvalsstöðum. Leiðbeinandi er myndlistarmaðurinn Þorvaldur Jónsson en hann tekur þátt í samsýningunni Nýmálað sem sett verður upp í Hafnarhúsi og á Kjarvalsstöðum. Ekki þarf að skrá sig á námskeiðið en takmarkaður fjöldi getur tekið þátt.

TÓNLEIKAR TRÍÓS REYKJAVÍKUR
Kl. 20. – 21.
Kvöldtónleikar Tríós Reykjavíkur innan um verk Kjarvals. Flutt verða tvö verk eftir Antonin Dvorak; Rómönsu op. 11 og Píanótríó nr. 4 sem gengur undir heitinu Dumky. Að þessu sinni er Tríóið skipað  Guðnýju Guðmundsdóttur fiðluleikara, Gunnari Kvaran sellóleikara og Richard Simms píanóleikara sem tekur við af Peter Maté. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Kl. 21.30. – 22.30
LEIÐSÖGN Á PÓLSKU
Wiola Ujazdowska, listfræðingur frá Póllandi sem búsett er á Íslandi, stýrir leiðsögn á pólsku um sýningarnar á Kjarvalsstöðum og segir frá sögu Listasafns Reykjavíkur. Á Kjarvalsstöðum má sjá sýningarnar Einar Hákonarson: Púls Tímans og sýninguna Ljóðrænt litaspjald, með verkum úr safneign Kjarvals.

ÁSMUNDARSAFN:
KL. 19. – 20.
LEIÐSÖGN Á ENSKU
Kathy Clark fjallar um verk sitt, á sýningunni A posteriori: Hús, höggmynd. Kathy býr til innsetningar sínar úr tilbúnum hlutum, fundnum hlutum og orðum og hún notar hluti og tákn til að sýna tilfinningalegar eða sálrænar upplifanir sem algengar eru í nútímasamfélögum.

KL. 21. – 22.30.
TÓNLEIKAR DUO HARPVERK – PASSPORT
Tónleikar Duo Harpverk nefnast Passport, en þar verða flutt nýverk víðs vegar að úr heiminum. Flutt verða verk eftir Michiharu Matsunga frá Japan, Nicolas Marty frá Frakklandi, David Otten frá Hollandi og  J.C. Combs og Alexander Sigman frá Bandaríkjunum. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Duo Harpverk var stofnað árið 2007 af hörpuleikaranum Katie Buckley og slagverksleikaranum Frank Aarnink.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com