Safnadagurinn í Hafnarborg

image008

 

Hafnarborg tekur þátt í safnadeginum, næstkomandi sunnudag 17. maí, með skemmtilegri og um leið fræðandi dagskrá fyrir börn og fullorðna. Boðið verður uppá fjölskylduleiðangra um sýninguna MENN sem nú stendur yfir í aðalsal safnsins og hægt verður að spreyta sig á fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum sem tilvalið er fyrir fjölskyldur að leysa úr í sameiningu. Einnig mun Ólöf K. Sigurðardóttir forstöðumaður Hafnarborgar og sýningarstjóri MENN ræða við gesti safnsins um sýninguna kl. 15.  Hafnarborg er opin frá kl. 12 – 17 á safnadaginn og aðgangur er ókeypis.

 

Í ár halda íslensk söfn upp á safnadaginn í tengslum við alþjóðlega safnadaginn sem haldinn er í kringum 18. maí. Alþjóðaráð safna velur deginum fyrirskrift og í ár er hún Söfn í þágu sjálfbærni sem leiðir hugann að því hlutverki safna að varðveita menningarverðmæti þannig að þau megi nýtast komandi kynslóðum.

 

Dagskrá:

Kl 13:00 og 14:00: Fjölskylduleiðangur um sýninguna MENN. Létt og fræðandi verkefni verða í boði sem tengjast sýningunni.

 

Kl 15:00: Sýningastjóraspjall. Ólöf K. Sigurðardóttir ræðir við gesti um sýninguna MENN þar sem farið verður í saumana á undanfara, ferli og heildarinntaki sýningarinnar.

 

MENN

 

image009

 

 

Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna.

 

Á sýningunni verða sýnd verk eftir fjóra karllistamenn í fremstu röð, þá Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarson, Hlyn Hallsson og Kristinn G. Harðarson. Verkin sem valin hafa verið til sýningar eru unnin í fjölbreytta miðla bæði video-verk, ljósmyndir, málverk, teikningar og útsaumsverk. Í verkunum takast listamennirnir á við spurningar um stöðu karla innan fjölskyldu hvað varðar hugmyndir um þátttöku í heimilislífi, ábyrgð á afkomu og uppeldi barna. Jafnframt verða á sýningunni verk sem sækja myndefni á slóðir sem fyrir mörgum eru dæmigerðar fyrir konur og þeirra reynsluheim.

 

Verkin vekja upp áleitnar spurningar um karlmennsku og hugsanlega misvísandi skilaboð frá umhverfi og samfélagi. Megineinkenni verkanna er þó sú nánd sem lesa má úr afstöðu listamannanna til fjölskyldu og barna um leið og í sumum verkanna má greina tilvistarkreppu.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com