Alistair

ROFMÁTTUR TÍMANS – TIME FROZEN, TIME THAWED – Sýningaropnun í Gallerí Gróttu 9.maí

Verið velkomin á opnun sýningarinnar í Gallerí Gróttu – Seltjarnarnesi, fimmtudaginn  9. maí kl. 17.00. 

ROFMÁTTUR TÍMANS

Tóm er viðfangsefni mitt.

Verkfæri mitt – ísinn – býr yfir sjálfsprottnum eyðingarmætti sem sviptir skúlptúra þriðju víddinni og skapar tvívíðar teikningar í þeirra stað. Við bráðnun íssins leysast form í rými upp og hverfa. Þegar þau birtast á nýjan leik minnir ásýnd þeirra á samþjappaða steingervinga þar sem enn má greina vitund um fyrri lögun.

Sú hugmynd að gera eitthvað áþreifanlegt úr engu hefur birst í verkum listamanna í gegnum tíðina. Medardo Rosso, ítalski myndhöggvarinn, Michael Heizer umhverfislistamaður og myndhöggvarinn Rachel Whiteread, hafa öll rannsakað þessa hugmynd.

Ísverkin verða til með hjálp þyngdaraflsins, þau eru höggmyndir í rými, – á endanum án rýmis og án íss -, en í þeim býr minning um hvort tveggja. Á einhverjum dögum eða vikum ryðgar járnið, sem komið hefur verið fyrir í ísklumpnum, og tekur á sig stirðnaða mynd. Í ísverkunum býr tóm, umvafið ryðskán, grugginu sem sest til á pappírnum þegar ísinn bráðnar. Í tóminu felst minningin.

Sjá má hliðstæður í bráðnun íssins og framköllun ljósmynda. Tíminn kallar fram mynd í framköllunarleginum, líkt og smám saman glittir í dökk form í ísnum þegar hann bráðnar. Eins og við framköllun ljósmyndar veltur birtingarmynd ryðskánar ísverkanna á tímalengd efnahvarfa. Í báðum tilfellum tekur þrívíður raunheimurinn á endanum á sig tvívíða
mynd.

Fíngert sprungunetið sem skapast í ryðskán ísverkanna verður til á svipaðan hátt og þegar ljósmynd flagnar með tímanum. Framrás tímans er stöðvuð, en um leið eru ísverkin og ljósmyndirnar efnislegir hlutir sem mótast af eyðingarafli hans.

Ég hrífst af kenningu Henris Bergsons um líðandina; huglægan tíma sem ekki er bundinn línulegri framrás heldur á eitthvað sameiginlegt með hugmyndum vísindamanna. Frá tímum Bergsons hafa vísindamenn nálgast tímann á merkilegan máta, teygt hann og togað, jafnvel gert holur í hann. Á þversagnarkenndan hátt hefur tíminn jafnvel færst þeirri alheimsmynd tímans sem flest trúarbrögð heims ýja að.

Dulspekingar fyrri tíma, löngum kallaðir trúvillingar, trúðu á fullveldi andans – allt annað var hjóm – og að efnisheimurinn (undir áhrifum frá hugmyndum Platós), væri aðeins ófullkomin eftirmynd sannleikans. Efasemdir þeirra um raunheiminn voru settar fram af krafti. Fyrir vikið voru þeir útskúfaðir, en hver veit nema þeir hafi verið nær sannleikanum en þeir sem ofsóttu þá?

Árið 1887 varð Eadweard Muybridge fyrstur til þess að skrásetja myndrænt hreyfingar barns á hlaupum og hlaupara á spretti. Tvö verkanna á sýningunni byggja á myndröðum Muybridge af fólki á hreyfingu. Járnafsteypur unnar upp úr myndröðunum hafa farið hægferð gegnum ísinn og aftur er það tíminn sem dregur þær fram og birtir á pappírnum.

Í eyðunni milli fígúranna felast ósýnileg augnablik, í eyðunni býr næsta sýnilega atvik. Eyðurnar eru forsmekkur þess sem koma skal. Flæði tímans birtist líkt og árhringir í þverskurði trjástofns, eins og jarðlög, eða í verksummerkjum froðu í tómu bjórglasi – í eilífur ferli vaxtar og rofs.

Lausleg þýðing úr ensku :
Ragna Sigurðardóttir

Alistair Macintyre er fæddur á Bretlandi, en hefur verið íslenskur ríkisborgari frá árinu 2009. Hann er menntaður frá listaháskólunum í Cardiff, Wales.

Síðan Alistair flutti til Íslands hefur hann tekið þátt í ýmsum listviðburðum hér á landi og haldið einkasýningar víða, m.a. á Kjarvalsstöðum, Ketilhúsinu og Gerðasafni. Verk hans eru í eigu ýmissa opinberra aðila og einkasafna í Bretlandi, Bandaríkjunum og á Íslandi, til að mynda Listasafns Reykjavíkur.

Rofmáttur tímans – Time Frozen, Time Thawed, er áttunda einkasýningin Alistairs á Íslandi. Hin hægmynduðu ísverk á sýningunni hér hafa verið níu ár í mótun.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com