Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg: Samkeppni um listaverk í almannarými í Vesturbæ

Í kjölfar íbúakosningar á Hverfið mitt 2020 hefur Reykjavíkurborg ákveðið að efna til samkeppni um gerð útilistaverks til uppsetningar í Vesturbæ Reykjavíkur.

Samkeppnin er haldin samkvæmt samkeppnisreglum Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) – hugmyndasamkeppni í einu þrepi. Áhugasamir sendi inn tillögu að listaverki og mun dómnefnd skipuð fulltrúum Reykjavíkurborgar og SÍM velja úr innsendum tillögum.

  • Frestur til að skila tillögum rennur út kl. 17:00, fimmtudaginn 21. maí 2020.
  • Stefnt er að því að dómnefnd ljúki störfum eigi síðar en 22. júní 2020.

Við val á listaverki skal metið á hvern hátt verkið auðgar mannlíf í Vesturbæ, fegrar eða virkjar vannýtt svæði og skapar spennandi umhverfi. Kallað er eftir fjölbreyttum hugmyndum og er horft til þess að listaverk geta haft margbreytilega virkni og notagildi, ólíkir aldurshópar geti notið þeirra og eða þau tengist sögu svæðisins.

Staðarval er opið en hverfið afmarkast af Suðurgötu og Garðastræti til austurs og mörkum Reykjavíkur og Seltjarness til vesturs. Listaverkið á að vera hluti af almannarými í hverfinu og því sé fundinn staður þar sem margir geta notið þess en einnig skal hafa í huga að nýta borgarlandið eða fasteignir borgarinnar. Verkefninu skal lokið á árinu 2020.

Samkeppnin er hluti af íbúalýðræðisverkefninu Hverfinu mínu 2020Listasafn Reykjavíkur hefur umsjón með útilistaverkum í eigu Reykjavíkborgar og  er tengiliður við Umhverfis- og skipulagssvið og önnur svið og deildir Reykjavíkurborgar varðandi samkeppnina. Trúnaðarmaður er tilnefndur af SÍM til upplýsingar og ráðgjafar fyrir þátttakendur í samkeppninni.

Keppnislýsing og skilmálar 

1. Verkefnið

Þátttakandi skal gera tillögu að útilistaverki í Vesturbæ Reykjavíkur.

Fjárhæð sem verja á til framleiðslu og uppsetningar á listaverki getur numið allt að 10 milljónum króna samtals. Innan þeirrar fjárhæðar skal rúmast undirbúningur, efni, aðkeypt vinna, höfundargreiðsla og vinnuframlag höfundar. Gert er ráð fyrir því að höfundur taki þátt í eða sjái um framkvæmdir við gerð listaverks og verði gerður sérstakur samningur þar um. Kostnaður vegna samkeppninnar er fyrir utan ofangreinda upphæð.

Reykjavíkurborg áskilur sér rétt til að velja fleiri en eitt listaverk til uppsetningar en öll verkin skulu rúmast innan fjárhagsramma samkeppninnar, jafnframt er áskilinn réttur til að hafna öllum tillögum.

2. Þátttökuheimild

Þátttaka er öllum opin. Hver þátttakandi getur skilað inn einni til tveimur tillögum. Heimilt er að skila tveimur útgáfum af sömu tillögu.

3. Trúnaðarmaður

Trúnaðarmaður samkeppninnar hefur verið tilnefndur af SÍM og er tengiliður höfunda við verkkaupa.

4. Keppnisgögn

Gögn vegna samkeppninnar, teikningar, ljósmyndir og skilgreiningar, eru aðgengileg á vefsíðunni www.reykjavik.is/listaverk-i-vesturbae

5. Fyrirspurnir

Fyrirspurnir skal senda trúnaðarmanni samkeppninnar. Fyrirspurnir berist skriflega á netfangið vesturbaer2020@reykjavik.is eigi síðar en 10. maí. Fyrirspurnir ásamt svörum verða birtar nafnlaust á vef samkeppninnar eins fljótt og auðið er.

6. Keppnistillögur

Hverri tillögu skal fylgja:

a) Útlitsteikningar frá fjórum hliðum eða eins og við á s.s. ef verkið er tvívítt. Heimilt er að setja mynd af tillögunni inn í mynd af framtíðarumhverfi verksins. Heimilt er einnig að senda inn líkan og/eða þrívíddarteikningu af tillögunni. Teikningar og ljósmyndir skulu settar upp á A3 blöð.

b) Greinargerð um hugmyndina að baki verkinu, efnisval, uppbyggingu og útfærslu fylgi með á allt að tveimur A4 blöðum.

c) Áætlaður kostnaður við gerð verksins, þ.m.t. helstu kostnaðarliðir og höfundargreiðsla.

Samkeppnin er gerð á grundvelli nafnleyndar. Tillögu fylgi lokað umslag en í því skulu vera upplýsingar um nafn höfundar/höfunda, kennitala, netfang, heimilisfang og símanúmer ásamt greinargóðum upplýsingum um feril. Öllum gögnum skal skilað bæði rafrænt og á útprentuðum blöðum að undanskildum módelum.

Ef þátttakandi getur ekki sökum fjarveru komið því við að afhenda gögn sín eins og um er rætt í liðum a, b og c getur hann sent gögnin rafrænt eingöngu og mun trúnaðarmaður þá prenta gögn á ábyrgð þátttakanda.  

Heimildir um samkeppnina verða varðveittar í Listasafni Reykjavíkur.

7. Skil keppnistillagna og skilafrestur

Frestur til að skila tillögum rennur út kl. 17:00, fimmtudaginn 21. maí 2020.

Keppnistillögum skal skilað bæði rafrænt og á útprentuðum blöðum. Rafræn skil eru á netfangið vesturbaer2020@reykjavik.is. Rafræn gögn má einnig afhenda á minnislykli.

Prentuð gögn sem send eru með almennum pósti skulu merkt með eftirfarandi hætti:

Samkeppni um gerð útilistaverks í Vesturbæ Reykjavíkur

Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhúsi

Tryggvagötu 17, 101 Reykjavík 

Heimilt er að afhenda trúnaðarmanni gögnin eftir samkomulagi – netfang vesturbaer2020@reykjavik.is

Trúnaðarmaður undirbýr tillögurnar fyrir dómnefnd. Hann gefur hverjum höfundi dulnefni, sex stafa talnarunu, sem hann merkir öll gögn viðkomandi höfundar með. Trúnaðarmaður einn getur haft vitneskju um rétt nafn höfundar.

Hver þátttakandi getur skilað inn einni til tveimur tillögum. Heimilt er að skila tveimur útgáfum af sömu tillögu. Fleiri en einn höfundur geta sameinast um að skila inn tillögu að einu verki.

Með afhendingu á tillögu í samkeppnina telst þátttakandi samþykkja keppnislýsinguna og að hann muni virða niðurstöðu dómnefndar. Í samkeppnisferlinu verður farið með öll gögn sem trúnaðarmál.

8. Dómnefnd

Samkeppnin er opin hugmyndasamkeppni með dómnefnd. Dómnefnd er skipuð fulltrúum Reykjavíkurborgar, Íbúaráðs Vesturbæjar, Listasafns Reykjavíkur og tveim fulltrúum frá SÍM. Stefnt er að því að dómnefnd ljúki störfum eigi síðar en 22. júní 2020.

9. Sérfræðiálit

Dómnefnd samkeppninnar er heimilt að leita eftir áliti utanaðkomandi sérfræðinga varðandi einstök atriði telji hún þess þörf, þó þannig að fyllsta trúnaðar sé gætt. Dómnefnd skal hafa samráð við skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar varðandi hugsanlega staðsetningu og Listasafn Reykjavíkur varðandi viðhald áður en endanleg niðurstaða dómnefndar er kynnt. 

10. Úrslit

Þegar dómnefnd hefur lokið störfum og hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að velja eitt eða fleiri verk til útfærslu birtir hún niðurstöður sínar og skal nafnleynd þá létt af tillögum.

Dómnefnd skilar skriflegu áliti með rökstuðningi fyrir vali á ákveðinni tillögu/tillögum. Ef dómnefnd telur enga tillögu koma til greina til útfærslu áskilur hún sér rétt til að hafna öllum innsendum tillögum. Niðurstaða dómnefndar er endanleg.

Þegar niðurstaða liggur fyrir verður samið sérstaklega við höfund/höfunda um útfærslu verksins og hans/þeirra hlut í því. Höfundarlaun og önnur laun til höfundar skulu rúmast innan fjárhagsáætlunar sem fylgir tillögunni.

11. Sýning

Heimilt er að halda sýning á tillögum samkeppninnar í húsakynnum Listasafns Reykjavíkur eftir að úrslit liggja fyrir.

12. Samkeppnisreglur

Um keppnina gilda samkeppnisreglur Sambands íslenskra myndlistarmanna. Keppnislýsing þessi hefur verið samþykkt af stjórn SÍM, fulltrúum íbúalýðræðisverkefnisins Hverfið mitt og Listasafns Reykjavíkur sem er framkvæmdaraðil keppninnar.  

13. Úrvinnsla

Að því gefnu að verkkaupi sé sáttur við niðurstöðu dómnefndar verður gengið til samninga við höfund/höfunda verks eða verka sem valin hafa verið. Gert er ráð fyrir að samningum verði lokið fyrir 1. ágúst 2020. Heimilt er að hafna öllum tillögum.

Þátttakendur fá gögn sín afhent eða send í pósti. Stafrænum gögnum verður eytt.

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com