Untitled 1df

Reykjavík 1985-1990 – Húbert Nói Jóhannesson

Reykjavík 1985-1990 – Húbert Nói Jóhannesson

Reykjavík 1985-1990 er yfirskrift sýningar Húberts Nóa Jóhannessonar sem var opnuð í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 11. febrúar. Á sýningunni eru nokkur verka Húberts Nóa frá árunum 1985-1990 og hafa sum þeirra ekki verið sýnd áður opinberlega. Verkin eru af stöðum í Reykjavík sem málaðir eru eftir minni en strax á námsárum sínum var það leiðarstef listamannsins að færa umhverfið, byggingarlist og landslag inn í manneskjuna og yfirfæra það aftur út í umhverfið, hafandi staldrað við um stund í efnaferli líkamans.

Á þeim tíma, sem verkin vísa til, kom upp á yfirborðið stefna í myndlist er nefndist  neo geo eða ný geometria, sem er m.a. kennd við listamennina Helmut Federle, John Armleder, Gerwald Rockenschaub og Franz Graf. Áhrifa stefnunnar gætti talsvert hjá ungum myndlistarmönnum sem voru að hasla sér völl á Íslandi um miðjan níunda áratuginn og margir snérust á sveif með henni einkum eftir gestakennslu Helmut Federle við MHÍ 1984.
Myndlistarmaðurinn Húbert Nói felldi þessa stefnu að sínum myndheimi þar sem borgarumhverfi og landslag er einfaldað í geometrisk form. Framsetning og viðfangsefni eru persónuleg en sjálfsprottin nálgun við listsköpun var ein meginstefa í hugmyndafræði nýja málverksins og pönksins, sem voru nánast samtíða neo geo stefnunni.

Hugmyndalist (concept) var allsráðandi í listheimi áttunda áratugarins og voru verk Húberts Nóa, rómantísk og upphafin, meðvitað samtal eða andsvar við stefnuna eins og hún birtist honum.  Í viðtali sem tekið var við Húbert Nóa í Þjóðviljanum 1. ágúst 1987 sagði hann um verkin sín:    „Þetta eru hús í borginni, Skólavörðuhæðin, Elliheimilið Grund…Þjóðminjasafnið …….En ég mála þetta eftir minni, svona eftir að myndin af húsinu eða staðnum er búin að gerjast í undirmeðvitundinni í dálítinn tíma”. Til að undirstrika að upplifunin hafi farið í gegnum vefi líkamans lýsir Húbert Nói pensilskrift verkanna lagskiptri og gagnsærri  þannig í texta sýningarskrár (Gallerí Sævars Karls 1990):

„Tími, tilfinningar, minningar hafa ákveðið gegnsæi: Hugsanir leggjast hver yfir aðra, þar er upplifunin, eilítið á skjön við hinn ytri veruleika… “

Samspil innri og ytri heims hefur verið viðfangsefni manna um aldir microcosmos og macrocosmos en Húbert Nói skoðar með aðferð sinni meðvitað færsluna milli þessara heima. Fyrirmynd verkanna er ekki hinn ytri heimur beint heldur minningin um hann, hún er síðan færð út í ytri heiminn í formi listaverks og verður þannig hluti af honum.

Heiti verkanna hér er oft skilgreint með götuheiti eða götunúmeri viðfangsefnisins, minningarinnar. Síðar á ferlinum táknar Húbert Nói staðsetningar með hnattstöðu, lengdar- og breiddarbaugum, en með þeirri nálgun verður landslagsmálverk að rúmfræði eða geometriu.  Sýningarsalurinn sem mótíf  eða viðfangsefni kemur inn í myndheim Húberts Nóa 1985 og staðsetningarverk (site specific ) unnin í sýningarrými mynda óslitið ferli í höfundarverkinu. Með þessum verkum og síðar „málverkum af málverkum” gerir hann minni áhorfandans að beinum þátttakanda í ferlinu milli fyrirmyndar /eftirmyndar og hreyfingarinnar milli rýmis hins innri heims og rýmis hins ytri heims.  Í verkum Húberts er geometrian myndlíking (metafora) fyrir innviði manneskjunnar. Að nota minnið við gerð listaverks er að setja upplifun hennar í forgrunn, kortleggja hinn innri heim og staðsetja og skoða hugsanaferli.  Minnið er þannig hin persónulega upplifun en á sama tíma sammannlegt fyrirbæri (collective).

WP2Social Auto Publish Powered By : XYZScripts.com